Hagvöxtur mældist 3,5% í Japan á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er nokkuð meira en almennt var reiknað með en meðalspá Bloomberg hljóðaði upp á 2,7% hagvöxt á fjórðungnum. Breska dagblaðið Financial Times segir í umfjöllun um málið á vef sínum að þetta sé jafnframt kröftugasti hagvöxturinn sem mælist innan sjö stærstu iðnríkja heims. Þetta er annar ársfjórðungurinn í röð sem landsframleiðsla eykst í Japan.

Hagvöxtur skýrist m.a. af 0,9% vexti í einkaneyslu, 3,8% vexti í útflutningi og gengislækkun jensins á fjórðungnum. Financial Times segir Japani geta þakkað Shinzo Abe og aðgerðum ríkisstjórnar hans í ríkisfjármálum. Abe settist í stól forsætisráðherra í kringum síðustu jól.