Hagvöxtur mældist 1% í Japan á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Þetta er nokkuð undir væntingum markaðsaðila sem bjuggust við allt að 2,8% hagvexti á fjórðungnum. Forsendur þess að gert var ráð fyrir meiri hagvexti en raunin varð er sú að spáð var snörpum vexti í einkaneyslu áður en hækkun á virðisaukaskatti tekur gildi í apríl næstkomandi. Reiknað er með því að skattahækkunin komi niður á einkaneyslu tímabundið eftir að hún tekur gildi.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir að Japanir hafi lagt of mikið traust á efnahagsaðgerðir stjórnvalda, ekki síst þær sem Shinzo Abe forsætisráðherra hafi stýrt síðan hann tók við fyrir ári og eigi að koma efnahagslífi landsins á réttan kjöl. Aðgerðirnar hafa miðað að því að veikja gengi japanska jensins og auka útflutning. Gengi japanska jensins féll um 18% gagnvart bandaríkjadal í fyrra. Útflutningur frá Japan hefur hins vegar aukist minna en vonast var til, að sögn BBC.