Landsframleiðsla á öðrum ársfjórðungi óx einungis um 0,2% á ársgrundvelli í Japan, sem er undir væntingum markaðarins sem miðuðu við 0,7%. Hagvöxturinn hefur minnkað mikið frá 1. ársfjórðungi, þegar hann var 2%.

28 billjónir jena í efnahagsstuðning

Tölurnar koma í kjölfar þess að ríkisstjórnin birti áætlun um gríðarlega umfangsmiklar aðgerðir til að örva hagkerfið, að andvirði 28 þúsund milljarða jena.

Hlutabréf í Japan féllu eftir að niðurstöðurnar urðu kunnar.

Neikvæðir stýrivextir

Auk beinna fjárhagsaðgerða ríkisstjórnarinnar til að örva hagkerfið, eru stýrivextir japanska seðlabankans neikvæðir sem og hann stendur í gríðarlegum uppkaupum á eignum til að ýta fjármagni út í hagkerfið.

Mikill þrýstingur hefur verið á Shinzo Abe forsætisráðherra að stöðva tveggja áratuga verðhjöðnun í landinu, þar sem verð hafa lækkað, en greinendur segja að aðgerðir hans til þess, sem hafa verið kallaðar Abenomics og eru hans helsta stefnumörkun, sé ekki að virka.

Lítill árangur af aðgerðum

„Meginmarkmið Abenomics var að snúa hagkerfinu við í grundvallaratriðum, og gera úrbætur á hinum hefðbundnu hindrunum við hagvöxt, en lítill árangur hefur af þeim aðgerðum,“ segir Marcel Thieliant, hagfræðingur hjá Capital Econommics sem sér um málefni Japans.

„Í grundvallaratriðum er hagkerfið að fljóta á öldu efnahagsstuðnings en um leið og dregur úr skriðþunga þeirrar öldu, munum við fara aftur á sama stað og áður.“

Eitt skuldsettasta ríki heims

Vegna lélegs hagvaxtar ætlar forsætisráðherrann að fresta annarri hækkun söluskattsins í landinu til ársins 2019.

Japan þarf að hækka skatttekjur sínar til að borga fyrir skuldir ríkisins, sem eru einar þær hæstu í heiminum, en þegar söluskatturinn var hækkaður síðast árið 2014 dróst hagkerfið saman því neysla minnkaði.

Einkaneysla dregst saman

Einkaneysla er um 60% af landsframleiðslu, en hún jókst einungis um 0,2% á öðrum ársfjórðungi, miðað við 0,7% ársfjórðunginn á undan.

Fjárfestingar drógust einnig saman annan ársfjórðunginn í röð í kjölfar þess að sterkara jen dregur úr eftirspurn eftir útflutningsvörum landsins.