*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 9. mars 2018 09:07

Hagvöxtur var 3,6% í fyrra

Utanríkisverslun dró úr hagvexti 2017 þrátt fyrir 105,1 milljarði króna afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hagvöxtur á Íslandi árið 2017 nam 3,6% samkvæmt nýbirtum tölum frá Hagstofu Íslands.

Landsframleiðsla er nú 15,3% meiri en hún var árið 2008. Einkaneysla og fjárfesting vógu þyngst í vexti landsframleiðslunnar en alls jukust þjóðarútgjöld um 6,8%. Einkaneysla jókst um 7,8%, samneysla um 2,6% og fjárfesting um 9,3%.

Útflutningur jókst um 4,8% á árinu 2017 sem er nokkuð hægari vöxtur en árið 2016 þegar aukningin nam 10,9%. Á árinu 2017 jókst innflutningur um 11,9% og dró utanríkisverslun úr hagvexti þrátt fyrir 105,1 milljarði króna afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum.

Fjárfesting jókst um 9,3% árið 2017 samanborið við 22,5% vöxt árið 2016. Aukning í fjárfestingu atvinnuveganna nam 4,3% og íbúðafjárfesting jókst um 21,6%. Fjárfesting hins opinbera jókst um 23,4% á árinu 2017 sem er töluvert meiri vöxtur en síðustu ár. Fjárfesting, sem hlutfall af landsframleiðslu, nam 22,1% á árinu 2017 en það er meiri hækkun en mælst hefur frá árinu 2008.

Sam¬neysla sem hlutfall af landsframleiðslu var 23,3% á liðnu ári, samanborið við 22,8% árið 2016. Frá árinu 1997 hefur hlutfall samneyslu af landsframleiðslu verið 23,4% að meðaltali.