Þrátt fyrir að landsframleiðsla hafi staðið í stað á fyrsta ársfjórðungi og verið töluvert undir því sem spár gerðu ráð fyrir er ekki tilefni til að ætla að hagvöxtur verði mikið lægri en í upphaflegum spám. Þetta kemur fram í nýrri útgáfu Peningamála Seðlabanka Íslands.

Þar er því spáð að hagvöxtur verði 3,4% á árinu, sem er 0,3% minni hagvöxtur en spáð var í maí, en svipaður vöxtur og á síðasta ári.

Í rökstuðningi fyrir hagvaxtarspánni segir að minni hagvöxtur á fyrri hluta árs endurspegli skekkju í áætlaðri dreifingu hagvaxtar innan ársins, þ.e. að hagvöxturinn leiðréttist þegar líður á árið.

Gert er ráð fyrir að hagvöxtur aukist enn frekar á næsta ári og verði um 3,9%, og þá fari saman kröftugur vöxtur einkaneyslu og töluverður þungi í fjárfestingu í orkufrekum iðnaði. Gert er ráð fyrir 2,8% hagvexti árið 2016.

Þá er talið að verðbólga verði á þriðja ársfjórðungi verði 2,3%, eða 0,2% minni en spáð var í maí. Jafnframt er spáð að verðbólga verði 2,6% á fjórða ársfjórðungi. Samkvæmt spánni yrði meðalverðbólga á þessu ári 2,4%, sem er rétt undir verðbólgumarkmiði bankans.

Á árinu 2015 er búist við að verðbólga aukist lítillega samhliða því að slakinn í þjóðarbúinu minnkar og verði að meðaltali um 2,8% og 2,9% árið 2016 en það er lítillega minni verðbólga en gert var ráð fyrir í maí. Samkvæmt spánni er verðbólga mest um 3% á seinni hluta spátímans en tekur síðan að hjaðna í átt að markmiði um mitt ár 2017.