*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Innlent 21. maí 2019 18:04

Spá 0,1% hagvexti á Íslandi í ár

Moody‘s spáir 0,1% hagvexti á Íslandi í ár sem er bjartsýnni spá en hjá Hagstofunni og Arion banka.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Greiningarfyrirtækið Moody‘s hefur lækkað hagvaxtaspá sína úr 2,5% í 0,1% hagvöxt á Íslandi á þessu ári. Starfsmenn Moody‘s er því örlítið bjartsýnni en Hagstofa Íslands sem spáði 0,2% samdrætti landsframleiðslu í ár og Arion banki sem spáði 1,9% samdrætti landsframleiðslu á árinu. Moody's spáir því að hagvöxtur verði 2,7% á næsta ári en hafði áður spáð 2% hagvexti á árinu 2020.

Moody‘s staðfesti óbreytt lánshæfiseinkunn ríkissjóðs sem er A3 með jákvæðum horfum. Takist að lenda hagkerfinu mjúklega gæti það leitt af sér hækkun lánshæfismatsins. Harður skellur sem hafi áhrif á afkomu og skuldastöðu ríkissjóðs gæti aftur á móti leitt til lægra lánshæfis.

Moody‘s segir að nýgerðir kjarasamningar feli í sér lægri launahækkanir en búast hefði mátt við. Því spáir Moody‘s nú 3,2% verðbólgu í ár í stað 3,4% í fyrri spá.

Helsta óvissan í hagkerfinu sé staða ferðamennskunnar. Moody‘s spáir 10% fækkun ferðamanna í ár, svo þeir verði álíka margir og árið 2017. Miklu skipti hvort flugfélög hlaupi í skarðið fyrir Wow air og hve langan tíma það taki. Til lengri tíma megi áætla að flugframboð aukist enda fljúgi 27 flugfélög í áætlunarflugi til Íslands.