Hagvöxtur í Bandríkjunum mældist 2,9% á fjórða ársfjórðungi 2022, samkvæmt nýbirtum hagtölum sem voru yfir spá hagfræðinga um 2,6% hagvöxt. Helstu hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna hafa hækkað um 0,1%-0,8% frá opnun markaða.

Árstíðaleiðrétt verg landsframleiðsla í Bandríkjunum jókst um 2,9% á ársgrundvelli á milli þriðja og fjórða fjórðungs á föstu verðlagi. Til samanburðar mældist hagvöxtur 3,2% á ársgrundvelli á þriðja fjórðungi, sem gefur til kynna að vaxtahækkanir Seðlabanka Bandaríkjanna séu farnar að hafa áhrif eftirspurn að því er segir í frétt Financial Times.

Frá mars 2022 hefur seðlabankinn hækkað vexti um fjórar prósentur til að reyna að ná tökum á verðbólgunni sem mælist enn yfir 6%. Peningastefnunefnd bankans býr sig nú undir að hækka vexti um 0,25 prósentur, úr 4,25% í 4,5% á fundi í næstu viku. Væntingar eru um að stýrivextir bankans fari upp í 5% í ár.

Margir hagfræðingar telja að von sé á samdrætti í Bandaríkjunum síðar í ár og talið er að atvinnuleysi eigi eftir að nálgast 5%, samanborið við 3,5% í dag.