Seðlabankinn segir að svo virðist vera sem lengri tíma hafi tekið að vinna upp framleiðslutap fyrirtækja í sjávarútvegi eftir verkfall sjómanna í byrjun ársins sem og hraðar hafi hægt á þjónustuútflutningi en bankinn gerði ráð fyrir í ágúst.

Þetta kemur fram í nýjasta hefti Peningamála Seðlabankans, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun ákvað peningastefnunefnd bankans að halda stýrivöxtum óbreyttum í 4,25%. Jafnframt segir bankinn að verðlag sjávarafurða virðist vera að gefa eftir og því verði viðskiptakjarabati af þeim minni á árinu en áður var spáð og því eru horfur á að hraðar dragi úr viðskiptaafgangi en áður var talið.

Á fyrri hluta ársins nam hagvöxturinn 4,3% og hafði hann minnkað úr ríflega 10% á seinni hluta síðasta árs. Á sama tíma er spáð að vöxtur innlendrar eftirspurnar aukist um 6,3% frá fyrra ári, vegna mikilla hækkunar ráðstöfunartekna og minna aðhaldsstigi opinberra fjármála.

Bankinn breytir hins vegar lítið spám sínum um hagvöxt næstu ára, hann verði svipaður á næsta ári og í ár og að það hægi enn frekar á honum í átt að langtímaleitnivexti þegar lengra líður á spátímann. Samt sem áður verði hagvöxtur yfir sögulegu meðaltali og meðalhagvexti í helstu viðskiptalöndum meginhluta spátímans, sem nær til ársins 2020.