Mikill vöxtur þjóðarútgjalda og þá sérstaklega neyslu á þessu ári sést glögglega í tekjum ríkissjóðs. Þannig voru tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti 13,5% meiri á fyrstu átta mánuðum þessa árs en á sama tímabili í fyrra samkvæmt upplýsingum sem fjármálaráðuneytið sendi frá sér í gær. Aukningin í tekjum ríkissjóðs af vörugjöldum af ökutækjum var 36,3%. Samanlögð aukning í tekjum ríkissjóðs af þessum tveimur tekjustofnum er 8,2 ma.kr. Í Morgunkorni Íslandsbanka segir að þetta sé umtalsverð fjárhæð sem hagvöxturinn er að skila í ríkiskassann um þessar mundir og eru þá ekki taldir með aðrir þættir á tekju- og gjaldahlið sem vegna ríkulegs hagvaxtar skila ríkissjóði bættri afkomu.

Í Morgunkorninu kemur fram að heildartekjur ríkissjóðs námu 181 mö.kr. á fyrstu átta mánuðum þessa árs eða 10 mö.kr. meira en á sama tímabili í fyrra. Á móti voru gjöldin 189,7 ma.kr. og hækkuðu þau um 12,8 ma.kr. á milli ára. Aukning gjalda á sér rætur að rekja til aukinna útgjalda til heilbrigðismála, almannatrygginga, fræðslumála og samgöngumála. Í heild eru gjöldin um 6,3 mö.kr. umfram áætlun fjárlaga einkum vegna aukinna útgjalda til almannatrygginga og samgöngumála. Tekjujöfnuður ríkissjóðs var neikvæður um 8,6 ma.kr. á fyrstu átta mánuðum ársins samanborið við 6,3 ma.kr. í fyrra. Afkoma ríkissjóðs versnar því á milli ára á þennan mælikvarða. Afkoman batnar hins vegar ef miðað er við handbært fé frá rekstri. Þannig var handbært fé frá rekstri neikvætt um 7,3 ma.kr. á fyrstu átta mánuðum þessa árs samanborið við 19,1 ma.kr. á sama tímabili í fyrra segir í Morgunkorninu.