Hagvöxtur var meiri í Bretlandi á síðasta ári en áður var gefið út, samkvæmt nýjum tölum frá bresku hagstofunni. Þannig nam hagvöxtur á síðasta ársfjórðungi ársins 0,6% en ekki 0,5% líkt og áður var talið. BBC News greinir frá þessu.

Þessi hækkun þýðir að hagvöxtur ársins í heild nam 2,8% en ekki 2,6% eins og áður var áætlað. Er það mesti hagvöxtur í landinu frá árinu 2006 þegar hann mældist 3%.

Helstu áhrifavaldar á meiri hagvöxt voru meiri umsvif í framleiðslu og þjónustu auk þess sem einkaneysla jókst á árinu. Það sem olli því hins vegar að tölurnar voru endurskoðaðar voru sterkari útflutningstölur.