Ákveðið hefur verið að minnka verulega þau verkefni sem fyrirhugað var að ráðast í á vegum Landic Property á hafnarsvæði Árósa. Það felur meðal annars í sér að hætt hefur verið við byggingu háhýsis sem fengið hafði heitið Lighthouse upp á ensku og átti að vera 142 metrar. Sem slíkt hefði það orðið eitt helsta kennileiti bæjarins.

Að sögn Viðars Þorkelssonar, forstjóra Landic Property, varð það að samkomulagi milli þeirra, fjármögnunaraðila og bæjaryfirvalda að breyta um forsendur í þróun verkefnisins. ,,Við munum skipta verkefninu í tvo þætti og það verður lögð áhersla á fyrri þáttinn sem snýr að byggingu á tveimur íbúðablokkum og síðan hóteli. vegna markaðsaðstæðna mun seinni hlútinn, sem er þessi skýjakljúfur, bíða. Ég held að það sé mjög skynsamlegt í ljósi markaðsaðstæðna því það hefur margt breyst síðustu mánuðina."

En þó ákveðið hafi verið að halda áfram með hluta verkefnisins þá er það í raun ákvörðun um að halda áfram að skoða málið. Viðar tók þó fram að það væri full samstaða um þetta við bæjaryfirvöld í Árósum. Kostnaður við áframhaldandi verkefni liggur ekki fyrir en ákvörðun um framhald málsins verður tekin fyrri part næsta árs.