Glitnir greiddi hinum norska Sveinung Hartvedt um 200 milljónir íslenskra króna í ráðningarbónus þegar hann var ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis, eftir því sem segir í frétt norska vefmiðilsins E24. Hartvedt var áður framkvæmdastjóri hlutabréfaviðskipta hjá DnB NOR Markets í Noregi og tók við starfinu hjá Glitni í maí síðastliðnum.

Greint er frá því í frétt E24 að svo háir ráðningarbónusar séu nýlunda í Noregi og er þeim líkt við kaupsamninga fótboltastjarna.

Að sögn heimildamanns E24 tíðkast nú að verðbréfamiðlarar með allt niður í eins árs starfsreynslu séu lokkaðir til starfa á nýjum vinnustöðum með ráðningarbónusum sem skipta milljónum norskra króna.

Hartvedt svaraði spurningu blaðamanns E24 um ráðningarbónusinn á þessa leið: "Ég vil hvorki staðfesta þetta né neita því. Ég hef ekkert um málið að segja." Glitnir á Íslandi vildi ekkert láta hafa eftir sér um málið.

Norska dagblaðið Dagens Næringsliv gerði málinu einnig skil og segir tölur á bilinu þrjár til 25 milljónir nú tíðkast í Noregi þegar ráðningarbónusar eru annars vegar.

Haft er eftir Moniku Dypeng hjá ráðningarskrifstofunni Kelly Financial Resources: "Þessir kappar eru drifnir áfram af næstum engu öðru en peningum. Ef nóg er borgað þá er hægt að lokka til sín hvern sem er."

Hún bætir því við að ungir miðlarar sem ráðnir eru samkvæmt slíkum samningum geti "gleymt því að fara heim úr vinnunni klukkan fimm."