Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, ræddi um fjármálamarkaðinn og íbúðamarkaðinn í útvarpsþættinum Harmageddon í morgun. Þetta kemur fram á vefsíðu samtakanna . Þáttastjórnendurnir spurðu Sigurð meðal annars út í grein sem hann skrifaði í síðustu viku í Fréttablaðinu þar sem segir að í hvítbók um íslenska fjármálakerfið komi fram að útlánavextir íslensku bankanna séu mun hærri en útlánavextir banka í nágrannalöndunum þar sem greiða þarf margfalt hærri vaxtagreiðslur fyrir jafn hátt lán og að munurinn komi niður á samkeppnisstöðu og verðmætasköpun íslenskra fyrirtækja.

Sigurður var spurður hvers vegna þetta væri svona og sagði hann það vera góða spurningu. „Í Hvítbók um framtíðarsýn á íslenska fjármálakerfið er mjög ítarleg greining á stöðunni og hugleiðingar um hvernig má bæta úr. Það er hópur á vegum stjórnvalda sem tekur hvítbókina saman svo stjórnvöld geti mótað stefnu í þessum málum en stjórnvöld ráða fjármálamarkaðnum í gegnum skattheimtu og lagasetningu og hafa því heilmikið um það að segja.“

Sigurður var spurður hvort þessi hvítbók væri ekki hvítþvottur fyrir stjórnvöld til að fegra eitthvað eða hvort þetta væri gagnrýnin framsetning á ástandinu svarar hann að um væri að ræða ítarlega og góða greiningu á stöðunni og tilmæli um það hvar helstu vandamálin liggja og hugleiðingar um hvernig megi bæta úr.