Greiningardeild Kaupþings spáir því að efnahagslífið þokist nær jafnvægi með samdrætti þjóðarútgjalda á þessu ári en hagvöxtur verður samt jákvæður, meðal annars vegna aukins álútflutnings. Gengi krónunnar mun áfram sveiflast á tiltölulega þröngu bili með sterkri kauphlið með krónunni sökum mikils vaxtamunar við  útlönd.

Þetta kom fram þegar greiningardeildin greindi markaðaaðilum frá hagspá sinni næstu tvö ár í morgun en hún verður kynnt á opnum morgunverðarfundi á morgun.

Greiningardeildin spáir því að þetta bil muni þó án efa víkka þegar dregur fram á árið og vaxtalækkunarferlið færist nær. Greiningardeildin gerir ráð fyrir því að verðbólgumarkmiði verði náð um mitt ár 2008 og áfram verði nokkur viðskiptahalli til staðar.

Á fundinum í morgun sagði Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildarinnar að krónan væri ótrúlega stöðug þrátt fyrir að síðustu tveir mánuðir hefðu einkennst af fremur slæmum fréttum.