Björgvin Guðmundsson, meðeigandi KOM, segir árlega samantekt ríkisskattstjóra yfir þá fjörtíu einstaklinga sem greiða hæstu skattana vera ólögmæta. Hann hyggst leggja fram kæru á hendur embættinu og segir að málið sé komið í ferli. Staðhæfir Björgvin í nýlegri færslu á samfélagsmiðlinum Twitter að „Hákarlalistinn" verði ekki gefinn út að ári.

Í júní í fyrra lýsti Björgvin því yfir á Twitter að hann myndi aðstoða alla á topp 20 lista ríkisskattstjóra við að leita réttar síns vegna birtingarinnar.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Björgvin að erfiðlega hafi gengið að finna fólk sem væri til í slaginn í fyrra en í ár sé einn einstaklingur reiðubúinn að stíga fram. Hann segir ekki tímabært að greina frá því hver sá einstaklingur sé en það muni koma fram þegar kæra liggur fyrir. Umræddur einstaklingur mun veita Björgvini umboð fyrir sína hönd til að kanna hvort um sé að ræða brot á persónuverndarlögum.

"Ég tel listann sem slíkan vera brot á friðhelgi einkalífsins og að mínu mati er þetta prinsipp mál," segir Björgvin. "Ég hef barist gegn þessu síðan ég var formaður Heimdallar á sínum tíma og hef þar að auki skrifað fjöldan allan af greinum um málið," bætir hann við.

Björgvin segir að til standi að byrja á að kvarta til persónuverndar og kanna hvort um sé að ræða brot á persónuverndarlögum það að opinberir starfsmenn taki saman lista upp úr persónuupplýsingum og sendi á fjölmiðla til opinberrar birtingar.

„Önnur leið er að spyrja ríkisskattstjóra á hvaða lagagrundvelli þeir geti tekið saman lista yfir þá einstaklinga sem hæsta skatta greiða og senda til opinberrar birtingar. Fyrsta skrefið er að Hákarlalistinn verði ekki sendur út að ári. Það er markmið númer eitt núna," segir hann.

„Þegar svör berast munum við beita okkur á hinum pólitíska vettvangi. Við munum þá beina kvörtun okkar til Fjármálaráðuneytisins verði þessari framkvæmd ekki hætt," bætir hann við að lokum.