Bandaríska flugfélagið American Airlines varð fyrir barðinu á hökkurum sem brutu sér leið inn í tölvukerfi félagsins í gegnum tölvupóst starfsmanna.

Flugfélagið segir hakkarana þó aðeins hafa komist yfir persónurekjanleg gögn fámenns hóps viðskiptavina og starfsmanna. Þetta kemur fram í grein hjá CNBC.

Félagið segir ekkert benda til þess að gögnin hafi enn sem komið er verið misnotuð. Þá hafi félagið látið læsa reikningum sem brotist var inn á og ráðið netöryggisfyrirtæki til að rannsaka málið.

Flugfélagið sagði viðskiptavinum sínum að upplýsingarnar í tölvupóstunum gætu hafa innihaldið fæðingardag viðskiptavina, ökuskírteini, læknaupplýsingar og vegabréfsnúmer.

American hefur nú þegar boðið, þeim viðskiptavinum sem urðu fyrir barðinu á hökkurunum, upp á tveggja ára vernd gegn persónuþjófnaði.