*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Innlent 13. október 2020 11:33

Hakkaþon fyrir landsbyggðina

Næstu helgi fer fram svokallað lausnarmót fyrir matartengda nýsköpun í gegnum samsköpunarlausn á netinu.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Hacking Hekla er nýtt lausnamót fyrir landsbyggðina sem ferðast hringinn í kringum landið og byggir ofan á verkefni sem verða til á leiðinni. Um er að ræða nýsköpunarviðburð sem að þessu sinni verður haldinn á netinu.

Fyrsta stopp er Suðurland en þar er lausnamótið haldið í samvinnu við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og Nordic Food in Tourism. Unnið verður með matartengda nýsköpun og skapandi heimamenn og aðrir Íslendingar hvattir til að grípa tækifærið og finna lausnir sem „uppfæra“ svæðið.

Gróska hefur verið í hakkaþon-senunni undanfarið með viðburðum eins og Reboot hack, Hack the crisis, Spjaraþon, Gagnaþon og lausnamóti Nýsköpunarvikunnar. Nú er komið að lausnamótinu Hacking Hekla sem fer fram um næstu helgi.

Draga á frumkvöðla landsbyggðar fram í dagsljósið

Hakkaþon eða lausnamót er nýsköpunarviðburður þar sem áhugasamir aðilar koma saman, deila reynslu og þekkingu og skapa lausnir við vandamálum eða áskornunum. Viðburðurinn sem vanalega tekur frá 24-48 klst er leið fyrir þátttakendur til að efla sig í að koma góðum hugmyndum í framkvæmd og að vinna gagngert að gera verkefni að veruleika.

Hacking Hekla er lausnamót fyrir landsbyggðina. Markmiðið er að draga fram í sviðsljósið það öfluga frumkvöðlastarf sem á sér stað á landsbyggðinni og tengja saman frumkvöðlasenurnar í dreifbýli og þéttbýli á Íslandi.

Sömuleiðis á verkefnið að virkja skapandi hugsun og styðja við nýsköpun og fjölgun atvinnutækifæra á svæðinu. Hacking Hekla varð til í gegnum doktorsverkefni Magdalenu Falter en hún er að rannsaka nýsköpun og frumkvöðlastarf í sveitum landsins.

„Náttúran á Íslandi er svo dularfull og veitir manni svo mikinn innblástur! Ég þurfti að flytja úr sveitinni til Reykjavíkur vegna doktorsnámsins. Með Hacking Hekla getum við búið til fleiri verkefni og störf sem gera skapandi hugum kleift að búa á landsbyggðinni - í tæri við þessa kraftmiklu náttúru!“ segir Magdalena Falter, stofnandi Hacking Hekla

Hún fékk til liðs við sig reynslubolta úr stuðningsumhverfi frumkvöðla, hana Svövu Björk Ólafsdóttur en hún hefur meðal annars stýrt nýsköpunarkeppnum, hröðlum og fjölmörgum lausnamótum ásamt því að kenna frumkvöðlafræði og nýsköpun í háskólum og fræðslusetrum.

Stefnt á Vestfirði og Norðurland á næsta ári

Hacking Hekla 2020 er unnið í góðu samstarfi við Samtök sveitafélaga á Suðurlandi og Nordic Food in Tourism. Verkefnið hefur þar að auki hlotið styrk úr frumkvöðlasjóði Íslandsbanka og frá Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu.

Á næsta ári er stefnan tekin á Vestfirði og Norðurland og árið 2022 er draumurinn að ljúka fyrsta hring með Austurlandi, Vesturlandi og Reykjanesi. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu hefur viðburðurinn verið færður alfarið yfir á netið.

Ýmsar fyrirmyndir eru fyrir því hér á landi að halda lausnamót á netinu og má þar til dæmis nefna Spjaraþon á vegum Umhverfisstofnunar og Gagnaþon sem fóru fram um daginn alfarið á netinu. Nýttir verða vettvangar eins og Zoom fyrir erindi, fyrirlestra og vinnusmiðjur fyrir þátttakendur og nýr starfrænn vettvangur sem heitir Hugmyndaþorp.

Hugmyndaþorp er hugarfóstur Arnars Sigurðssonar sem er reyndur frumkvöðull og starfaði lengi hjá Blábankanum á Þingeyri. Hugmyndaþorp er svokölluð samsköpunarlausn og verður þróuð samhliða Hacking Hekla verkefninu.

Erindi og fyrirlestrar ásamt opnunarviðburði og verðlaunaafhendingu verða streymdir á facebook síðu verkefnisins og því getur almenningur fylgst með þó svo að ekki sé tekið þátt í lausnamótinu.

Fer fram um helgina

Fyrsta Hacking Hekla fer fram dagana 16.-18. október næstkomandi. Þema lausnamótsins í þetta sinn er „Í átt að sjálfbærri framtíð með matartengdri nýsköpun” og verða þátttakendur hvattir til að hugsa þemað út frá mismunandi vinklum; nýjar leiðir til samgangna og flutninga, ferðaþjónusta, náttúruvernd, svæðisbundin hráefni, framleiðsla og neysla matvara.

Útkoman úr lausnamótinu getur verið stafræn lausn, vara, þjónusta, verkefni, hugbúnaður, vélbúnaður eða markaðsherferð. Fyrstu verðlaun eru 150 þúsund krónur ásamt fjölda aukavinninga frá frumkvöðlum á svæðinu eins og Icelandic Lava Show, The Cave People, Midgard basecamp, Zipline og fleira.

Hugmyndasmiðir, skapandi einstaklingar allir sem vilja efla sig í að láta hugmyndir verða að veruleika eru hvattir til að skrá sig. Allar nánari upplýsingar á heimasíðu SASS.