Hákon Gunnarsson var á dögunum ráðinn verkefnastjóri stefnumótunar hjá Kópavogsbæ.

Hákon, sem er með meistaragráðu í stefnumótun og stjórnun frá Copenhagen Business School og menntaður viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, hefur undanfarin sextán ár starfað sem ráðgjafi í stefnumótun. Síðastliðin sjö ár hefur Hákon rekið eigin fyrirtæki, Gekon, sem starfar á sviði stefnumótunar og klasastjórnunar. Þar áður starfaði hann hjá Capacent og veitti meðal annars forstöðu stefnumótunarteymi fyrirtækisins.

Hákon hefur gegnt stjórnunarstöðum, bæði sem fjármála- og framkvæmdastjóri hjá framleiðslu og þjónustufyrirtækjum. Hann hefur flutt erindi um stefnumótun og verkefni á því sviði víða um heim og staðið fyrir heimsóknum fræðimanna á sviði stefnumótunar og stjórnunar til landsins.

Verkefnastjóri stefnumótunar er nýtt starf hjá Kópavogsbæ. Í því felst mótun framtíðarsýnar, gilda og meginmarkmiða sem bæjarstjórn setur og munu stofnanir bæjarins í framhaldinu vinna stefnumarkandi áætlanir sem taka mið af yfirstefnu bæjarstjórnar.