Rekstur TEMPO verður skilinn frá rekstri TM Software ehf. og stofnað um það sér fyrirtæki, Tempo Software ehf.

„Markmiðið með aðskilnaði Tempo, sem er verkefnaumsjónar- og tímaskráningarlausn, frá annarri starfsemi TM Software er að auka sýnileika og styrkja uppbyggingu TEMPO sem vörumerkis á erlendum vettvangi. Jafnframt aukast tækifæri til samstarfs við utanaðkomandi aðila um að styðja við hraðan vöxt, m.a. með tengslamyndun og fjármögnun á vöruþróun og markaðsstarfi," segir í tilkynningu frá Nýherja.

Hákon Sigurhansson verður framkvæmdastjóri TM Software. Ágúst Einarsson verður framkvæmdastjóri Tempo Software, en hann hefur verið framkvæmdastjóri TM Software síðustu 8 ár. Hann mun sitja í stjórn TM Software.

Tekjur TM Software á síðasta ári námu um 1.670 milljónum króna og jukust um 31%. Um er að ræða einn besta rekstrarárangur félagsins um árabil. Velta veflausna- og heilbrigðishluta félagsins námu um 930 milljónum. Velta TEMPO var um 740 milljónir króna samanborið við 400 árið 2013. TM Software og Tempo Software eru dótturfélög Nýherja. Tempo Software hefur starfsemi 1. febrúar 2015.