Hákon Már Örvarsson hefur verið ráðinn faglegur framkvæmdastjóri Kokkalandsliðsins. Hákon Már var lengi vel yfirkokkur á veitingastaðnum Vox og starfaði einnig á veitingastað Hótel Holts og Michelin veitingastaðnum Lea Linster í Luxemborg.

Í tilkynningu segir að Hákon Már hafi mikla reynslu af þátttöku í matreiðslukeppnum og hafi keppt fyrir hönd Íslands í fjölda skipta. Hann hefur unnið til margvíslegra verðlauna á ferli sínum, meðal annars hefur hann verið valinn Matreiðslumeistari ársins, unnið brons-verðlaun í Bocuse d’Or keppninni og Norðurlandakeppni.

Í tilkynningunni er haft eftir Hafliða Halldórssyni, forseta Klúbbs matreiðslumeistara, að það sé mikill ávinningur fyrir klúbbinn að fá svo reynslumikinn mann eins og Hákon Má til að stýra Kokkalandsliðinu.

Fyrsta verk Hákons Más verður að velja í Kokkalandsliðið matreiðslumeistara, en stefnan er sett á þátttöku í Heimsmeistaramótinu í matreiðslu 2014.