Hákon Sigurhansson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra hjá TM Software – heilbrigðislausnum af Hallgrími Jónssyni sem látið hefur af störfum, segir í fréttatilkynningu.

Hákon er fæddur árið 1964 og er með MBA próf frá ESCP-EAP viðskiptaháskólanum í París frá árinu 2005 og MS-gráðu í rafeindaverkfræði frá Álaborgarháskóla í Danmörku árið 1990.

Hann starfaði sem sjálfstæður ráðgjafi frá 2005. Á árunum 2001-2004 starfaði Hákon hjá Trackwell Software sem framkvæmdastjóri þróunar- og rekstrarsviðs og framkvæmdastjóri sölu- og vörustjórnunarsviðs. Hákon var yfirmaður upplýsingatæknimála Dómsmálaráðuneytisins og undirstofnana frá 1996-1999 og starfaði þar áður við hugbúnaðargerð hjá Kögun.

TM Software TM Software er alhliða upplýsingatæknifyrirtæki sem nýtir þekkingu og hæfni starfsmanna til að styrkja starfsemi viðskiptavina. TM Software hefur meira en tveggja áratuga reynslu á markaði og er með sérstöðu í hugbúnaðarþróun, rekstri, ráðgjöf og búnaðarlausnum.

TM Software – heilbrigðislausnir hefur um árabil þróað fjölmargar lausnir fyrir heilbrigðisgeirann sem eru notaðar af  heilbrigðisstofnunum, læknum og apótekum landsins.