Í málaferlum þeim sem deCODE hefur hafið gegn fimm fyrrverandi starfsmönnum sínum og Barnaspítala Phíladelpíuborgar (BP) kemur fram að fyrirtækið telur að þessir aðilar hafi lagt á ráðin frá því í september 2005 fram til maí 2006 um að stela dýrmætustu eignum deCODE og flytja þær í PB. "Til að ná þeim markmiðum vann dr. Hákon Hákonarson sem njósnari fyrir Barnaspítala Phíladelpíuborgar um leið og hann kom fram sem tryggur starfsmaður deCODE." Þannig er málið kynnt til sögunnar í stefnu fyrirtækisins sem verður tekin fyrir sem lögbannsmál í fyrstu en í framhaldi þess þarf að fara í staðfestingarmál. Af stefnu málsins má ráð að deCODE telur að gerð hafi verið tilraun til að afrita starfsemi félagsins og stela mörgum af helstu viðskiptaleyndarmálum þess.

Ljóst er af stefnunni að deCODE hefur talið sig þurfa að beita ýmsum ráðum til að fá upplýsingar um framferði starfsmanna sinna. Hefur félagið náð tölvupóstssendingum úr tölvum þeim sem starfsmennirnir notuðu og þá einnig af netföngum sem þeir höfðu aflað sér, svo sem hjá yahoo og hotmail. Talsmaður félagsins leggur áherslu á að það hafi aðeins sótt tölvupósta sem finna mátti í vélbúnaði í eigu fyrirtækisins og það hafði látið stefndu í té. Það er einnig áréttað í stefnunni. Sömuleiðis virðist félagið hafa nákvæma skrá um aðgengi fimmmenninganna að tölvum félagsins og hvaða gögnum var hlaðið niður úr móðurtölvu. Óhætt er að fullyrða að mál sem þetta hefur ekki komið upp á Íslandi áður en Hákon var sérstakur trúnaðarmaður í fyrirtækinu enda þriðji æðsti launaði starfsmaður þess. Einn starfsmaðurinn, dr. Jesus Sainz, hefur verið í farbanni en hann er eini starfsmaðurinn sem ekki hefur tekið til starfa hjá BP. Hann hefur ráðið sér íslenskan lögmann og hyggst fara í meiðyrðamál við deCODE.

(Meira í Viðskiptablaðinu í dag)