*

miðvikudagur, 27. október 2021
Erlent 2. júní 2020 15:14

Halda í 75% af fyrra leiðakerfi sínu

EasyJet stefnir á að taka upp þrjá fjórðu af fyrra leiðarkerfi næstkomandi ágúst. Fjöldi ferða dregst þó talsvert saman.

Ritstjórn
Airbus A320 vél í litum EasyJet.
Aðsend mynd

Lággjaldaflugfélagið EasyJet hefur minnkað talsvert við starfsemi sína vegna áhrifa kórónufaraldursins. Félagið vonast samt sem áður eftir því að geta haldið í helming af fyrra leiðakerfi sínu í lok júlí, sú tala ætti að aukast upp í 75% í lok ágúst.

EasyJet mun hefja starfsemi á ný 15. júní næstkomandi með áherslu á innanlandsflug í Bretlandi og Frakklandi, að því er kemur fram á vef BBC. Félagið stefnir á að fljúga til Spánar síðar í sumar en endanleg tímasetning ræðst bæði af því hvenær höftum verður aflétt og hvenær eftirspurn neytenda tekur við sér.

Félagið býst við því að halda uppi um 30% af fyrri starfsemi milli júlí og september, þar sem fjöldi fluga mun dragast verulega saman, þó haldið sé í stóran hluta leiða eins og áður segir. Þjónusta EasyJet verður einnig skert þar sem ekki verður boðið upp á mat. Viðskiptavinir og flugáhöfn munu þurfa að nota grímur, bæði á flugvellinum sjálfum og á meðan flugi stendur.

Stikkorð: Easyjet