Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær hefur töluverður samdráttur orðið í nýskráningu fólksbíla það sem af er ári og það sama á einnig við um ný útlán til bílakaupa. Það sem af er ári hafa nýskráningar dregist saman um 40% frá sama tíma í fyrra og bílalánin hafa dregist saman um 31% á fyrstu sjö mánuðum ársins miðað við sama tíma.

Að sögn Óðins Valdimarssonar, verkefnastjóra hjá bílgreinasambandinu er mikilvægt að hafa í huga þegar samdrátturinn er skoðaður að síðustu þrjú ár hafa verið meðal fimm stærstu bílasöluára sögunnar. Hann segir að blanda af náttúrulegri sveiflu og óvissu í efnahagslífinu hafi haft áhrif á bílasölu. „Sterk bílasala náði langt inn á síðasta ár þannig að fyrri hluti 2018 var mjög góður og það fór ekki að draga úr bílasölu fyrr en á seinni hluta ársins.

Það er ýmislegt sem skýrir það. Bæði er það náttúruleg sveifla, þar sem bílasala hefur yfir langt tímabil gengið í mjög líkum sveiflum þannig það var alveg viðbúið að það yrði minnkun í bílasölu. Við vorum að spá um 20% samdrætti sem var þá eðlilega sveiflan en svo hafa önnur 20% bæst við. Að okkar mati skýrist þessi viðbótarsamdráttur að mestu leyti af þeirri óvissu sem tók að myndast síðasta haust bæði varðandi flugfélögin og kjarasamninga. Öll óvissa hefur í gegnum tíðina bitnað á bílasölu og þá þarf ekki meira til en almennar alþingiskosningar eða eitthvað slíkt. Þetta safnaðist  svolítið mikið saman síðasta haust og allan síðasta vetur. Þetta gerði það að verkum að sveiflan varð ýktari en við bjuggumst við á sama tíma og bílasala hefur ekki tekið við sér eftir að þessari óvissu lauk.“

Óðinn segir að áframhaldandi samdráttur eftir að óvissuþáttum var rutt úr vegi skýrist að hluta til af því að fólk hafi haldið að sér höndum í bílakaupum meðal annars vegna orkuskipta. „Þetta skýrist að einhverju leyti af ákveðnu millibilsástandi á markaðnum meðal annars vegna orkuskipta. Það eru ákveðnir rafmagns- eða tengiltvinnbílar í boði en ekki nærri því nóg til að þjóna þörfum allra. Það er eins og fólk sé aðeins að halda að sér höndum við að kaupa bensíneða dísilbíla og bíða eftir að úrvalið á rafmagnsbílum aukist eða sjá hvert stefnir í þessum málum.

Þetta finnst okkur hjá Bílgreinasambandinu hins vegar miður þar sem það er í raun engin ástæða fyrir fólk að halda að sér höndum varðandi bensín- eða díselbíla.  Þeir eru farnir að eyða og menga margfalt minna en þeir gerðu fyrir nokkrum árum og  verða ekki bannaðir allt í einu, hvað þá bílar sem eru komnir á götuna.“

Að Sögn Óðins hefur samdráttur í bílasölu dreifst nær jafnt yfir einstaklings- og fyrirtækjamarkaðinn. „Það er ekki nema nokkurra prósenta munur á þessum mörkuðum. Fyrirtækjamarkaðurinn hefur þó verið örlítið betri. Allir flokkar eru niður á bilinu 30-40% en það er ekki einn flokkur sem sker sig úr eða dregur allt niður.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .