Bandarískur vogunarsjóður sem var um tíma stærsti einstaki eigandinn í Icelandair hefur selt um 7% af hlutafé sínu í félaginu eða um 37 milljónir hluta að því er Túristi greinir frá.

Sjá einnig: Sjóður kaupir 11,5% hlut í Icelandair

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá hefur gengi Icelandair lækkað nokkuð undir 1 krónu útboðsgengi hlutafjárútboðsins um miðjan síðasta mánuð, og fór það um tíma 13% undir það, þó að það standi nú í 0,96 krónum.

Vogunarsjóðurinn Par Capital keypti 11,5% hlut í Icelandair í apríl 2019 , eða alla hluti í nýútgefnu hlutafé félagsins og átti að nota fjármagnið til að færa út kvíarnar hjá flugfélaginu. Þar með varð sjóðurinn næst stærsti hluthafinn á eftir Lífeyrissjóði verzlunarmanna en eftir kaup á fleiri hlutum fyrir um 700 milljónir í maí sama ár varð sjóðurinn stærsti hluthafinn með 13,7% hlut.

Síðan í byrjun sumars hefur Par Capital selt sína hluti í Icelandair jafnt og þétt auk þess sem sjóðurinn tilkynnti um að hann tæki ekki þátt í hlutafjárútboði félagsins. Sjóðurinn var lengi meðal stærstu hluthafa United Airlines, en stjórnendur sjóðsins hafa einbeint sér að fjárfestingum í flug- og ferðageiranum .

Eftir áðurnefnda sölu Par Capital á bréfum í Icelandair er eignarhlutur sjóðsins í flugfélaginu nú kominn í 1,78%.