Þrátt fyrir að TDK Foil Iceland, áður Becromal á Íslandi, hafi neikvætt eigið fé frá rekstrar 2016/2017 segir í ársreikningi félagsins að það hafi næg úrræði til að halda rekstri þess gangandi. Móðurfélagið, TDK Foil Italy, muni halda áfram að veita nauðsynlegan fjárhagslegan stuðning til að standa við skuldbindingar félagsins. Í ársreikningi móðurfélagsins segir að eignarhlutur í verksmiðjunni hafi verið færður niður að fullu eftir að félagið framkvæmdi virðismat á eignarhlutnum. Fyrir lækkun eignarhlutsins var hluturinn í TDK Foil Iceland metinn á 1,9 milljónir evra, um 260 milljónir króna en nú er hann skráður á 0 evrur. Auk þess afskrifaði móðurfélagið lán upp á fimm milljarða króna til að styrkja eigið fé þess.

Bygging verksmiðjunnar kostaði um tíu milljarða króna. Ríflega hundrað manns starfa hjá félaginu hér á landi sem veltir að jafnaði á milli 9 og 11 milljörðum króna á ári. Í ársreikningi TDK Foil Italy segir jafnframt að afskrifaða lánið hafi verið veitt í október árið 2016 til að styrkja efnahag félagins. Á því rekstrarári færði félagið niður virði véla og tækja um 4,5 milljarða króna. Það ár nam tap TDK Foil Iceland 5,2 milljörðum króna.

Sjá einnig: TDK Foil afskrifar fimm milljarða

Þegar verksmiðjan var gangsett árið 2009 stóð til að stækka verksmiðjuna frekar. Árið 2012 var greint frá því að verksmiðjan væri ekki rekin á fullum afköstum vegna lágs afurðaverðs sem væri afleiðing af hægum hagvexti á alþjóðavísu. Sama ár var greint frá því að fallið hafi verið frá áformum um að stækka verksmiðjuna. Fjárfesting við stækkunina átti að hlaupa á milljörðum króna og fjölga störfum við verksmiðjuna um 30-50.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .