*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 6. maí 2021 11:03

Halda áfram uppteknum hætti

Kröfur borgar og Vegagerðar til umferðarljósa útiloka flesta þjónustuaðila, að einum undanskildum, frá þátttöku í útboðum.

Jóhann Óli Eiðsson
Eyþór Árnason

Borg og Vegagerð halda áfram uppteknum hætti hvað varðar útboð á ljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu. Skilmálar yfirstandandi útboða eru með þeim hætti að örðugt er fyrir alla nema einn að taka þátt í útboðinu.

Í Viðskiptablaðinu í lok febrúar var fjallað um stöðu ljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu. Þar kom fram að undanfarin ár hefði allur gangur verið á því hvort verk tengd ljósastýringu hefðu verið boðin út eður ei. Framan af var venjan að skipta beint við Smith & Norland hf., þjónustuaðila Siemens, en ljósin keyra á búnaði frá framleiðandanum.

Reykjavíkurborg hefur vanalega séð um að þjónusta umferðarljós í nágrannasveitarfélögum að auki. Kostnaði er síðan skipt á milli borgarinnar og Vegagerðarinnar í tilteknum hlutföllum. Oftar en ekki hefur Vegagerðin lagt sitt traust á borgina og greitt þá reikninga sem stofnuninni berast.

Nú eru yfirstandandi tvö útboð tengd umferðarljósum, annað á Seltjarnarnesi, vegna ljósa á gatnamótum Suðurstrandar og Nesvegs, og hins vegar á gatnamótum Snorrabrautar og Borgartúns. Líkt og vant er koma þar fram upplýsingar um kröfur sem búnaður þarf að uppfylla. Meðal annars þurfa stýrikassar ljósanna að geta tengst miðlægri stýritölvu umferðarljósa en hana keypti borgin af Smith & Norland á 60 milljónir króna án útboðs.

Umrædd tölva gerir öðrum mögulegum þátttakendum mjög erfitt um vik að taka þátt í útboðinu en stýrikerfi þeirra tala annað tungumál, ef svo má að orði komast, en Siemens búnaðurinn gerir. Standa þeir því frammi því verkefni, ætli þeir sér að taka þátt, að reyna að koma kassa í gegnum hringlaga gat. Að auki þarf búnaðurinn að geta átt samskipti við forgangskerfi neyðarbíla og strætisvagna sem einnig keyrir á lausn frá Siemens.

Rétt er að geta þess að kærunefnd útboðsmála úrskurðaði fyrir áramót að borgin og Vegagerðin skyldu greiða sekt vegna þess hvernig var staðið að kaupum á miðlægu stjórntölvunni. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að fáar borgir, af sambærilegri stærð og Reykjavík, brúki slíkar tölvur heldur keyri þau frekar sín kerfi gegnum skýjalausnir.