Jaðaráhrif skattkerfisins geta valdið því að fólk auki ráðstöfunartekjur sínar aðeins um 3.000 krónur við að selja út vinnu sína fyrir 10 þúsund krónur.

70% fara í skatta og skerðingar

„Hinar 7.000 krónurnar fara í virðisaukaskatt, tryggingagjald, iðgjöld í sameignarsjóð, tekjuskatt og bótaskerðingu.

Þetta óæskilega samspil skatta- og bótakerfa hefur stundum verið nefnt jaðaráhrif.

Ég hef sett upp reiknivélina Vasareikninn á heimasíðu minni www.sigridur.is/vasareiknir þar sem menn geta reiknað dæmið út frá sínum forsendum,“ segir Sigríður Andersen alþingismaður.

Getur jafnvel litið enn verr út

Bendir hún á að þættir eins og hjúskaparstaða, tekjur, eignir, skuldir, vaxtagjöld og fjölskyldustærð hafi áhrif á þessa hluti.

„Auk þess sem hér er tekið með í reikninginn eru afborganir námslána tekjutengdar, svo dæmið getur litið jafnvel enn verr út.“

Réttindi hjóna skert á síðasta kjörtímabili

Sigríður bendir jafnframt á að réttindi sambúðarfólks og hjóna urðu ekki lengur að fullu millifæranleg í skattkerfinu eftir breytingar á síðasta kjörtímabili.

Geti tekjuskattur því verið mjög misjafn eftir því hvernig tekjur skiptist á milli hjóna.

Getur munað allt að 700 þúsund

„Það getur munað yfir 700 þúsund krónum í tekjuskatt. Þetta atriði stendur til bóta um næstu áramót með lagabreytingum sem ég barðist fyrir á þingi síðastliðinn vetur.

Þá mun miðþrep tekjuskattsins einnig falla niður sem dregur úr jaðaráhrifum á því bili.

Skatthlutföll hafa sömuleiðis verið að lækka undanfarin ár, bæði virðisaukaskatturinn, tryggingagjaldið og tekjuskattshlutföllin.

En betur má ef duga skal,“ segir Sigríður.