Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að fyrir rúmu ári síðan hafi aðildarfélögin samið við SA á grundvelli efnahagslegs forsendna en nú sé allt breytt. Eftir að skrifað hafi verið undir samningana við SA hafi hið opinbera, ríki og sveitarfélög, samið við háskólamenn, kennara og lækna á allt öðrum forsendum.

„Þar er verið að fjalla um réttlæti og leiðréttingu og slík kjaramálaumræða er allt annars eðlis en umræða sem mótast af því hvaða efnahagslega svigrúm sé til launabreytinga," segir Gylfi. "Ef stjórnvöld hafa ekki áhyggjur af efnahagslegum forsendum þá er svolítið erfitt að ætlast til þess að félagsmenn Alþýðusambandsins hafi áhyggjur af þeim. Það virkar ekki þannig. Auðvitað verður kröfugerð stéttarfélaganna að endurspegla væntingar og vilja félagsmanna. Það er ekki eins og við forystumennirnir ráðum þessu bara. Við erum að vinna fyrir félagsmenn og þeir leggja línurnar."

Forsætisráðherrann með í liði

„Það er alveg ljóst að þetta mun kalla á erfiðar kjaraviðræður því það er verið að nálgast þær út frá ólíkum forsendum. Við höfum heimild til þess, alveg eins og gerðist hjá kennurum og læknum, að beita okkar félagslegu úrræðum og þvinga okkar viðsemjendur til fylgilags ef þeir vilja ekki koma til móts við okkur í rökræðu."

Spurður hvort hann eigi von á verkföllum svarar Gylfi: "Mér þykir það líklegt. Starfsgreinasambandið er þegar farið að skoða þetta og hefur þegar skipað verkfallsnefndir. Menn bara fylgja þessu eftir — ég tala nú ekki um þegar menn hafa forsætisráðherrann með sér í liði," segir Gylfi og vísar til ummæla ráðherra í þinginu á mánudaginn þar sem hann sagðist fylgjandi krónutöluhækkunum fyrir lægstu tekjuhópana.

Við ætlum ekki að haldi niðri verðbólgu

Spurður hvort hann óttist að kröfur aðildarfélaganna þýði að efnahagslegum stöðugleiki verði kastað út um gluggann svarar Gylfi: „Jú, jú. Það er engin launung að innan Alþýðusambandsins er mikil samstaða um það að skynsamlegast sé að fara hina norrænu leið sem þýðir að hækka laun í jöfnum skrefum. Við gerðum kjarasamning fyrir ári síðan á þessum forsendum en síðan breyttist allt með samningum kennara og lækna. Viðhorf stjórnvalda til kjaramála breyttist og menn féllust á það að háskólamenn í einhverjum millitekju- og efritekjulögum ættu harma að hefna vegna hækkun lægstu launa hjá lágtekjufólkinu í landinu. Þar með fellur þessi stefna. Við ætlum ekki að sjá um að halda niðri verðbólgu á meðan aðrir fá launahækkanir. Það er ekki í boði."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .