Fyrr í kvöld fjallaði Viðskiptablaðið um GEM Iceland og fjármálaþjónustu þeirra. Líklegt er að um svikamyllu sé að ræða, en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur hópurinn leigt sal á Hótel Sögu þar sem hann kynnir WealthGenerator fyrir óupplýstum einstaklingum.

Frá því að fréttin birtist fyrst, hefur Viðskiptablaðið fengið tölvupósta með þökkum fyrir umfjöllunina og nánari upplýsingum um starfsemina. Hópurinn hefur verið að leigja sal alla vikuna og heldur kynningarfundi milli 18 og 20 á kvöldin.

Tölvupóstunum fylgdu einnig skjáskot, þar sem einn úr GEM Iceland hópnum fjallaði um þau miklu tækifæri sem WealthGeneretor hefur upp á að bjóða.

„Hjá okkur trade'a einungis expertar og við lærum af þeim. Ef þú hefur áhuga þá getur þú mætt í kvöld eða á morgun á Hótel Sögu. Erum þar frá 18 til 20 að sýna fólki hvernig við make'um það!“

Einn lesenda blaðsins þakkaði svo sérstaklega fyrir umfjöllunina og sagðist þekkja til einstaklinga sem voru plataðir af hópnum. Að hans sögn hefur hópurinn verið að reyna að leigja sal í Háskóla Íslands, til þess að ýta undir trúverðugleika verkefnisins.