Már Guðmundsson seðlabankastjóri, sagðist ekki geta upplýst um hvort bankinn væri hluti af sérstakri viðbragðsáætlun ríkisstjórnarinnar til að draga úr styrkingu krónunnar, sem minnst var á um helgina, á kynningarfundi um ákvörðun peningastefnunefndar í morgun um að halda stýrivöxtum óbreyttum.

Þó velti hann því upp að slík viðbragðsáætlun myndi byggja á aðhaldssamri fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, en einnig mögulegum aðgangsstýringum í ferðaþjónustu í takt við það sem gert er í sjávarútvegi.

Einnig ræddi Már um að gaman væri að gera úttekt á hve mikil áhrif gjaldeyrisforðinn hefði haft áhrif á verðbólguvæntingar, sem og að nýkeypt skuldabréf frá aflandskrónueigendum myndu greiða vexti sem hjálpuðu til við að vega upp kostnað af forðanum.

„Það er ekki fullmótað, en það getur verið að við verðum með í slíku,“ sagði Már sem svar við spurningu um viðbragðsáætlunina. „Það er vitnað til orða ráðherra um viðbragðsáætlun til að draga úr gengishækkun krónunnar, en ég get ekki upplýst neitt um það, það er þeirra."

Aðhaldssöm ríkisfjármálastefna forsenda lægri vaxta

Már velti þó áfram upp í hverju slík viðbragðsáætlun gæti falist, þó hann tæki skýrt fram að hér væru um fræðilegar vangaveltur að ræða.

„Aðhaldssöm ríkisfjármálastefna gæti verið hluti af slíku, því við getum verið með lægri vexti en ella ef ríkisfjármálastefnan er aðhaldssöm," segir Már.

„Ef mönnum líkar illa hátt vaxtastig, þá þarf að gripa til aðgerða við rætur vandans, en þar hefur ríkisvaldið meiri tök, í gegnum skattlagningu, í gegnum mögulegan ramma í kringum ferðaþjónustu og svo framvegis.“

Aðgangsstýring í ferðaþjónustu möguleg lausn

Vísaði Már þar í aðgangsstýringaraðgerðir með verðlagningu eins og þær ssem Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, og formaður Samtaka ferðaþjónustunnar hefur lýst að hafi gefist vel hjá sínu fyrirtæki.

„Ekki ólíkt því sem hefur verið gert til að mynda í fiskiðnaði,“ segir Már en einnig svaraði hann spurningum um að stærð gjaldeyrisforðans hafi hjálpað til við stýra verðbólguvæntingum.

„Það er mjög góð spurning, sem gaman væri að skoða betur. En augljóst er að þegar hann er orðinn svona stór höfum við kraftinn til að stöðva óskipulagt fall á krónunni, svo líkurnar á slíku eru miklu minni.

Hér áður fyrr mátti gengið ekki fara nema eilítið niður og þá ruku verðbólguvæntingarnar upp, en nú sveiflast gengið töluvert og verðbólgumarkmiðið varla hreyfist.“

Skuldabréfasala ekki í trássi við peningastefnu

Setti hann einnig kaup Seðlabankans á skuldabréfum aflandskrónueigenda í samhengi við stærð gjaldeyrisforðans því bankinn hefði nú þörf til að halda í vaxtaberandi bréf til að vega upp á móti kostnaðinum af gjaldeyrisforðanum.

„Við fáum þessi bréf, en svo er það bara ákvörðun um að hversu miklu leiti þau verði aftur sett út á markaðinn, en við viljum ekki hafa áhrif á markaðinn með því umfram það stefnu um framgang peningastefnunnar.“