Þar sem bankar taka lán til skemmri tíma og lána út til lengri tíma ættu stýrivaxtalækkanir seðlabanka að leiða til þess að rekstur þeirra verður arðbærari. En þrátt fyrir dramatískar vaxtalækkanir í Bandaríkjunum hafa fjárfestar forðast hlutabréf fjármálafyrirtækja og gengi þeirra hefur almennt fallið á mörkuðum. Svipuð þróun á sér stað í Evrópu.

Þetta getur skýrst af ótta fjárfesta við niðursveiflu. Þróunin á skuldabréfamörkuðum bendir til þess en í niðursveiflu hafa skuldabréf tilhneigingu til þess að vera ábatasamari en hlutabréf. En það sem vekur sérstaklega athygli er þróunin á hrávörumörkuðum, en þar er heimsmarkaðsverð í hæstu hæðum.

John Authers, fjárfestingaritstjóri Financial Times, benti á það í pistli á dögunum að CRB-vísitalan yfir hrávöru hafi hækkað um einhver 39% síðan Ben Bernanke hóf núverandi vaxtalækkunarferli bankans í septembert í fyrra. Hann segir að þetta sé sérstakt þar sem þróunin síðasta aldarfjórðung hefur verið með þeim hætti að jákvæð fylgni hefur verið á milli uppsveiflu í alþjóðahagkerfinu og hækkunum á hrávöruverði. Þessi fylgni þarf ekki að koma á óvart: Vaxandi umsvif í hagkerfum kallar á meiri eftirspurn eftir hrávörum á borð við olíu og málma svo einhver dæmi séu tekin.

Authers leiðir líkum að því að hið á háa heimsmarkaðsverð á hrávöru sé meðal annars tilkomið vegna þess að spákaupmenn eru að reyna verja sig gegn vaxandi verðbólguþrýstingi í alþjóðahagkerfinu.

Slíkt virðist þversagnarkennt þar sem ein af uppsprettum verðbólguþrýstings í alþjóðahagkerfinu er hækkandi hrávöruverð. Það er í ljósi þessa sem Authers ýjar að því að fjárfesting í hrávöru sem vörn gegn verðbólgu sé stefna sem vinnur gegn sjálfum sér. Sértaklega séu skilaboðin sem koma frá hluta- og skuldabréfamörkuðum túlkuð á þann veg að niðursveifla sé yfirvofandi og að hún muni leiða til minni eftirspurnar eftir hrávöru.

Fleiri hafa velt ástandinu á hrávörumörkuðum fyrir sér. Rökstuðningur OPEC fyrir því að auka ekki framleiðslu á olíu til þess að koma böndum á hið himinháa heimsmarkaðsverð felst meðal annars í því áliti að spákaupmenn haldi uppi olíuverðinu með stöðutökum sínum í framtíðarsamningum. Það verður ekki annað sagt en að þróunin á hlutabréfamörkuðum fái blóðið til að renna hraðar um þessar mundir. Ekki er hægt að útiloka að hrávörumarkaðurinn muni leggja til enn meiri spennu á næstu misserum.