Spítali í sunnanverðri Kaliforníu hefur nú orðið fyrir víðtækri tölvuþrjótaárás. Læknar og starfsfólk spítalans hefur nú ekki aðgang að tölvupóstkerfi þess, og auk þess eru skrár sjúklinga á spítalanum óaðgengilegar. Jafnvel sum lækningatæki eru ónothæf þar eð þau reiða sig á internet-tengingu til þess að virka sem skyldi.

Læknar á spítalanum hafa þurft að halda öllum skrám sínum á pappír í heilar tvær vikur núna. Samskipti eru að sama sinni erfið, en þar sem tölvupóstur virkar ekki hafa þeir reynt að endurvekja gamalt fax-kerfi sem virkar talsvert sjaldnar en skyldi.

Tölvuþrjótarnir sem eru ábyrgir fyrir verknaðinum vilja fá heilar fimm milljónir dala í lausnargjald, eða rúmlega 650 milljónir króna. Lögrelgan í Los Angeles rannsakar nú málið. Ljóst er að með aukinni rafvæðingu kemur ekki aðeins hagkvæmni heldur að einhverju leyti hætta sömuleiðis.