Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Kína munu halda áfram viðræðum sínum um viðskiptasamning milli landanna í september næstkomandi en fulltrúar landanna hafa fundað í Shanghai nú í vikunni. Er þetta í fyrsta sinn í þrjá mánuði sem fulltrúar landanna ræða saman frá því á G-20 ráðstefnunni en löndin hafa á síðustu árum lagt yfir 360 milljarða tolla á vörur frá sitt hvoru landinu.

Í tilkynningu frá Hvíta húsinu kemur fram að umræðuefni fundar stórveldanna tveggja hafi meðal annars verið að tæknifyrirtæki veiti aðgang að tækni sinni í skiptum fyrir markaðshlutdeild (e. forced technology transfer), hugverkaréttindi, þjónustuútflutning, tollahindranir og landbúnaðarmál.

Bæði löndin hafa greint frá því að samskiptin hafi verið opin, skilvirk og uppbyggileg um efnahags- og viðskiptamál landanna. Þá staðfesti ríkistjórn Kína aukinn áhuga á auknum innflutningi á bandarískum landbúnaðarvörum gegn því að Bandaríkin skapi hagstæð skilyrði fyrir honum.

Eins og svo oft áður hefur Donald Trump gagnrýnt viðskiptahætti Kína auk þess sem hann sagði að landið hafi ekki staðið við aukinn innflutning á landbúnaðarvörum eins og samið hafi verið um.