Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) hefur boðað til vinnuráðstefnu á laugardaginn um „lausn á efnahagsvanda þjóðarinnar,“ eins og það er orðað í tilkynningu frá félaginu.

Samstarfsaðilar FVH um ráðstefnuna eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík, Stjórnvísi og Viðskiptaráð.

Í tilkynningunni kemur fram að ráðstefnugestum verður skipt í vinnuhópa til að ræða ástandið í þjóðfélaginu og koma fram með tillögur til lausnar á vandanum.

„Stefnan er að ná fram sameiginlegri niðurstöðu ráðstefnugesta um hvernig taka skal á málum. Þeim tillögum verður síðan komið til ríkisstjórnar Íslands,“ segir í tilkynningunni.

„Leitast verður við að feta jafnvægi milli þess að hafa umræðuna opna til þess að leyfa öllum sjónarmiðum að komast að og að hafa vinnuna á ráðstefnunni stýrða til þess að umræða verði sem markvissust og að einhverjar niðurstöður fáist.“

Hér má sjá nánari upplýsingar um ráðstefnuna.