Það er rakspírailmur í loftinu. Ítalskur hetjutenór hljómar úr hátalaranum. Vasaúr, þverslaufur, sixpensarar, smókingskyrtur, tvídjakkar og annað það sem séntilmanninn gæti vanhagað um, prýða hillurnar. Bak við búðarborðið stendur prúðbúið sölufólk og býður góðan dag. Stemningin hjá Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar er engu lík, enda sækja hingað karlar allt frá fermingaraldri og upp í nírætt í vandaðan fatnað sem endist út ævina. Þessi einstaka verslun, í eigu þeirra Kormáks Geirharðssonar og Skjaldar Sigurjónssonar, hefur svo sannarlega mótað klæðaburð íslenskra karlmanna undanfarin ár.

Fyrsta fatalínan undir þeirra eigin nafni, sem Guðmundur Jörundsson hannaði, leit dagsins ljós fyrir fjórum árum. Fyrsta línan sem framleidd var erlendis kom svo árið 2012. Þegar Guðmundur kvaddi og hóf eigin rekstur undir merkjum JÖR knúði Gunni Hilmarsson fatahönnuður dyra.

„Hann var bara boðinn velkominn,“ útskýrir Kormákur. „Þetta var alls ekki svo flókið ferli og alveg í anda búðarinnar. Hann hafði reyndar verið á hliðarlínunni sem ráðgjafi þegar Gummi var yfirhönnuður svo að hann þekkti til hér.“

Gunni hefur fengist við fatahönnun í tvo áratugi og starfrækir nú tískumerkið Freebird, ásamt konu sinni. „Það er gaman að geta skipt sér svona niður – tvídföt á morgnana og kjólar á kvöldin. Það er ofboðslega áhugavert að hanna herraföt. Þau byggjast á ákveðnum gildum og hefðum; allt snýst um að þróa fullkomin snið og velja réttu efnin. Í hugmyndavinnunni förum við um víðan völl, drekkum kaffi og strjúkum efnum. Höfðingjarnir tveir koma síðan inn á seinni stigum og velja og hafna,“ segir hann og brosir.

Nánar er fjallað um málið í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .