*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 13. maí 2018 12:01

Haldið í hvítu svæðin

Hollenskur sérfræðingur í aldamótakynslóðinni segir það gott fyrir fyrirtæki að gefa stundum frí frá því að vera nettengd.

Höskuldur Marselíusarson
Thimon de Jong er hollenskur sérfræðingur sem var aðalræðumaður á afmælisráðstefnu Félags atvinnurekenda.
Haraldur Guðjónsson

Eitt af því sem Thimon de Jong, sérfræðingur í áhrifum samfélagsbreytinga á fyrirtæki og markaði, sem hélt nýlega fyrirlestur á afmælisráðstefnu Félags atvinnurkekenda, ræddi um, er nauðsyn þess að ungt starfsfólk nái stjórn á netnotkun sinni.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá hefur hann langa reynslu af því að fjalla um málefni aldamótakynslóðarinnar og hvernig best er að ná til þeirra, hvort tveggja sem starfsmenn og neytendur. Með aldamótakynslóðinni vísar hann í hópinn sem að jafnaði er miðaður við þá sem fæddir eru frá árabilinu 1980-85 annars vegar og til um 1997 til aldamóta hins vegar.

Greiða bónusa fyrir að fara ekki á netið

Nefnir hann sem dæmi um þetta er að í Kísildalnum eru fyrirtæki farin að greiða aukalega fyrir að starfsmenn taki sér frí sem eru án aðgengis að stafrænni tækni. „Þetta er auðvitað sértækur markaður, en vaxandi, þar sem fólk borgar aukalega fyrir að hafa ekki aðgengi að þráðlausu neti og að notkun snjallsíma á ströndinni, eða við sundlaugarbakkann sé jafnvel bönnuð,“ segir Thimon.

„Það er orðið að lúxusvöru að hafa ekki aðgang að stafrænni tækni. Ég tek eftir því til dæmis að appið White spots ,sem einmitt var smíðað af fólki af aldamótakynslóðinni, fyrir aldamótakynslóðina, sýnir að það eru 150 kílómetrar frá Reykjavík í svæði sem ekki hafa nettengingu. Haldið í svæðin, eins og hvítu blettina á Hornströndum.“

Þrjú einkennandi atriði við aldamótakynslóðina

Thimon fór yfir þrjú meginatriði sem einkenna þau sem teljast til aldamótakynslóðarinnar í fyrirlestri sínum sem haldin var í Gamla bíó 3. maí síðastliðinn.

Í fyrsta lagi að þau vilji sértæka þjónustu sem miði við þeirra einstaklingsbundnu þarfir, í öðru lagi að aldamótakynslóðin á í vandræðum með að hafa stjórn á notkun sinni á samfélagsmiðlum og stafrænu tækninni almennt og loks snýst þriðja atriðið um hverjum fólk af kynslóðinni treystir og hvernig það tekur ákvarðanir.

„Staðan er sú að við vitum meira um aldamótakynslóðina heldur en nokkra aðra kynslóð sögunnar. Þau hafa deilt meiru á samfélagsmiðlum heldur en bæði eldri kynslóðir, og jafnvel meira en kynslóð Z sem á eftir kemur, sem er nokkuð óviljugri til að deila upplýsingum um sig,“ segir Thimon.

„Viðhorf aldamótakynslóðarinnar er að þau vilja að upplýsingarnar séu nýttar. „Seljið mér eitthvað sérstakt og sérhannað fyrir mig,“ segja þau. Við búum í heimi stórra gagnasafna og aldamótakynslóðin vill að tæknin sé notuð til að svara þörfum þeirra.“

Vantar jafnvægi í netnotkunina

Nefnir Thimon þó einnig skuggahliðar allrar þessarar upplýsingasöfnunar. „Aldamótakynslóðin á í vandræðum með að hafa stjórn á netnotkuninni,“ segir Thimon og bendir á að notkun samfélagsmiðla geti kveikt á sömu heilastöðvum og önnur fíkn gerir.

„Við hentum allri þessari stafrænu tækni í fólkið af þessari kynslóð. Foreldrar höfðu enga hugmynd um að þegar snjallsíminn kom, með auðveldu aðgengi að upplýsingum, Google og allri þessari tækni sem kom á síðustu tíu til fimmtán árum, hve mikill tími fyrir framan skjáinn sé í raun góður fyrir fólk. Þannig var engin sérstök hugsun á bak við það hvernig samskipti innan fyrirtækja ættu að fara fram og hvar væri gott að nota þessa tækni og hvar ekki. Það má að mörgu leyti líkja þessari kynslóð við tilraunadýr sem við höfum gert háð snjallsímunum.“

Snjalltæki ekki til þess fallin að skapa virka fundi

Thimon bendir á að fyrir eldra fólk þá muni það vel að hægt er að komast af án aðgengis að stafrænu tækninni, og það geti því betur stýrt notkuninni, til að mynda á fundum á vinnustaðnum.

„Rannsóknir sýna sífellt betur að það er betra að nota pappír á fundum, því ef allir hafa eitthvert snjalltæki fyrir framan sig, síma, tölvur eða annað, þegar setið er við fundarborðið þá verður fundurinn ekki mjög virkur,“ bendir Thimon á sem segir að aldamótakynslóðin eigi oft erfitt með að vinsa úr öllu áreitinu.

„Það er ekki beint til þess að skapa heilbrigðan og félagslega virkan fund svo nú er fólk af aldamótakynslóðin farið í auknum mæli að biðja um að fundir séu haldnir án þess að nokkur snjalltæki séu uppi á borðum. Hann segir stjórnendur þurfi að hjálpa kynslóðinni að hafa stjórn á netnotkun sinni.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.