Jökull lærði rafeindaverkfræði í Álaborg í Danmörku, hélt þá til starfa hjá Marel um sjö ára skeið en vann síðan í í tólf ár hjá ÍSAL sem framkvæmdastjóri steypuskála og framkvæmdastjóri rafgreiningar áður en hann réð sig sem framleiðslustjóra hjá PCC BakkiSilicon á Bakka, uns hann varð forstjóri í septemberlok.

„Þetta er auðvitað framleiðslufyrirtæki og það er sama hvort um er ræða kísil, ál eða annað sambærilegt, þá er aðalmarkmiðið að framleiða góða vöru fyrir viðskiptavinina. Ég kann hreint ágætlega við mig í málmiðnaðinum og er bjartsýnn á framtíð hans,“ segir Jökull. Hann kveðst ekki gera ráð fyrir að viðamiklar breytingar fylgi nýjum forstjóra. „Það voru gerðar smávægilegar breytingar og tilfærslur innanhúss, en að öðru leyti höldum við bara áfram á sömu braut og verið hefur. Ég er spenntur fyrir þessu starfi, tek við ákveðnum áskorunum og glími við þær með mínu fólki.“

Rafskautin brotna öllum til furðu

Fyrri ljósbogaofn kísilvers PCC á Bakka, kallaður Birta, var settur í gang í apríllok á þessu ári. Ennþá er aðeins annar af tveimur ofnum í rekstri og verksmiðjan því rekin á hálfum afköstum. Seinni ofninn, Bogi svokallaður, hefur valdið fyrirtækinu margvíslegum erfiðleikum og ekki tekist að gangsetja hann þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir.

„Við höfum verið að basla við að koma ofninum í gang en ekki gengið sem skyldi. Þessi tvö stóru rafskaut sem við notum til að hita ofninn eru að brotna í honum, og við vitum ekki af hverju,“ segir Jökull. „Það má alltaf gera ráð fyrir ákveðnum barnasjúkdómum þegar verið er að koma flóknum tækjakosti í gang í nýrri verksmiðju og stærsti áhættuþátturinn er í upphafi. Við fundum fyrir því þegar fyrri ofninum var komið í gang, en áttum von á að seinni ofninn yrði mun auðveldari. Við erum að glíma við ný vandamál sem við komust ekki alveg til botns í ennþá og hafa fyrir vikið ekki verið leyst, og erum með erlenda sérfræðinga og helstu menn framleiðandans til að hjálpa okkur. Það má segja að um samverkandi vandamál sé að ræða og þá er erfiðara að greina þau og finna lausn.“

Jökull segir að fyrri ofninn gangi með ágætum og með honum sé verið að framleiða hágæðavöru. „En auðvitað erum við bara á hálfum afköstum og útlit fyrir að framleiðslan verði þar af leiðandi aðeins um helmingur þess sem við vonuðumst eftir á þessu ári,“ segir hann.

Verksmiðja PCC á Bakka er hönnuð til að framleiða rétt undir eða yfir 98,5% hreinan kísilmálm úr innfluttum hráefnum, þ.e. kvarsíti og kolefnum; hvarfgjörnum kolum með lágu öskuinnihaldi, trjákurli, auk lítils magns af kalksteini.

Verðlækkun í Evrópu vegna Trump

Verksmiðjan hefur þrjá stóra viðskiptavini í Evrópu, aðallega Þýskalandi. Kísilmálmur er m.a. notaður sem melmi í álblöndur og í efnaiðnaði til framleiðslu á síloxani og kísli. „ Á fyrri hluta ársins voru markaðshorfur fremur góðar en síðan hafa viðskiptahömlur þær sem Trump Bandaríkjaforseti hefur beitt sér fyrir orðið heldur til trafala. Framleiðendur í Evrópu hafa algjörlega dregið sig út af Bandaríkjamarkaði og þar af leiðandi gætir offramboðs í Evrópu, með tilheyrandi niðursveiflu á verði. Það er hins vegar hátt á Bandaríkjamarkaði og tækifæri þar að finna,“ segir Jökull. „Okkar viðskipti eru hins vegar einkum við Evrópu og við verðum að standa við okkar stóru samninga þar. Við höfum þó ákveðinn sveigjanlega varðandi um 20-30% af framleiðslunni og getum selt hana á þann markað sem best borgar hverju sinni. Eftirspurnin er alltaf vaxandi og ég held að þessi verðlækkun í Evrópu sé aðeins tímabundin markaðstruflun. Framtíðarforsendur verksmiðjunnar eru því mjög góðar að mínu viti.“

Hann segir að veiking íslensku krónunnar seinustu mánuði sé í sjálfu sér jákvæð fyrir verksmiðjuna eins og önnur útflutningsfyrirtæki. Frekar sé þó um jákvæð langtímaáhrif að ræða heldur en að veikingin skili fyrirtækinu miklu í bráð, enda stærsti hluti kostnaðar í evrum og dollurum.

Fjallað er um málið í Orku & iðnaði, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .