Hálfdan Gunnarsson hefur verið ráðinn forstjóri Parlogis ehf. og tekur við starfinu af Guðnýju Rósu Þorvarðardóttur sem lætur af störfum að eigin ósk. Parlogis er þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í vörustjórnun, m.a. á lyfjum.

„Ég hlakka til að vinna með öflugum stjórnendum og samstarfsfólki við að efla þjónustuframboðið og nýta vaxtartækifæri sem eru til staðar,“ segir Hálfdan.

Hálfdan er véla- og iðnaðarverkfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og hefur víðtæka rekstrar- og vörustjórnunarreynslu. Hann var einn af stofnendum AGR ehf. og stýrði uppbyggingu þess bæði á Íslandi og erlendis á árunum 1998 – 2007 auk þess að sinna stundakennslu við Háskólann í Reykjavík um nokkurra ára skeið.

Hálfdan starfaði í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka árin 2007 til 2009, en síðan þá hefur hann verið forstöðumaður innkaupa- og rekstrarþjónustu Orkuveitu Reykjavíkur. Kona hans er Þórhildur Ólafsdóttur, en þau eiga fjögur börn.

„Sú reynsla og þekking sem Hálfdan hefur mun nýtast Parlogis vel  á spennandi tímum. Parlogis hefur sterka stöðu á markaði, býr að góðum viðskiptavinum til langs tíma og frábæru starfsfólki. Fyrir hönd stjórnarinnar þakka ég Guðnýju Rósu fyrir farsæl störf hennar í þágu Parlogis undanfarin 10 ár. Fyritækið hefur sótt inn á nýja markaði og vaxið undir hennar stjórn," segir Jóhann Ingi Kristjánsson, stjórnarformaður félagsins í tilkynningu.