Hálfgert millibilsástand ríkti hér á landi á nýliðnu ári vegna stjórnarskiptanna í vor, segir Einar Sigurðsson, forstjóri MS. Hann svaraði nokkrum spurningum í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins.

Hvernig var árið 2013 heilt yfir?
Árin 2012 og 2013 voru sérstök í mjólkurframleiðslu og mjólkuriðnaði. Annars vegar vegna þess að matvælamarkaðurinn í heild virðist vera að taka við sér eftir áhrif hrunsins og hins vegar vegna þess að í mjólkuriðnaði sér fyrir endann á mikilli hagræðingarvinnu sem hefur nú skilað sér í ríflega tveggja milljarða króna lægri kostnaði á ársgrunni og leitt til þess að verðhækkanir á innlendum landbúnaðarvörum hafa verið innan vísitöluhækkana á þessu tímabili hagræðingar þrátt fyrir gífurlegar verðhækkanir á aðföngum.

Hvað fannst þér ganga vel á árinu?
Vegna stjórnarskipta í vor hefur árið 2013 verið hálfgert millibilsástand. Mér fannst mikilvægt að fá fram skýr sjónarmið stjórnvalda um að stefnt sé að skjótri afléttingu gjaldeyrishafta, jafnvel á fyrri hluta næsta árs. Það er heilmikið ónotað afl í íslensku atvinnulífi sem fær ekki eðlilega framrás í höftum.

Hvernig hefur nýja ríkisstjórnin staðið sig?
Hún hefur réttan fókus varðandi það að stöðva hallarekstur ríkisins og skuldasöfnun. Hún hefur klárlega skapað sér verulegt pólitískt svigrúm með þeim tillögum um skuldalækkun sem hún hefur lagt fram. Þetta svigrúm þarf að nota til að beina athyglinni að nauðsynlegri uppbyggingu og vexti í atvinnulífinu. Hún þarf að nota þetta svigrúm vel til að skapa forsendur til fjárfestinga í nýjum arðbærum verkefnum. Mér finnst að það sé hægt að forgangsraða betur í starfsemi ríkisins í þágu vísinda og nýsköpunar. Það er úrslitaatriði varðandi framtíðarhagvöxt og bætt lífskjör.

Hverjar eru væntingar þínar á nýju ári?
Ég er bjartsýnn, en ég vonast til þess að á nýju ári eyðum við sem þjóð að minnsta kosti jafn löngum tíma í að tala um hvernig við ætlum að búa til ný verðmæti eins og hvernig við ætlum að skipta verðmætum sem fyrir eru. Þetta hljómar auðvitað svolítið eins og klisja, en við viljum bæta hér lífskjörin og til þess þurfum við að skapa og framleiða meira.

Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins, kom út á mánudaginn. Í blaðinu eru meðal annars viðtöl við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra, Ásdísi Kristjánsdóttur hagfræðing, Þorstein Baldur Friðriksson, stofnanda Plain Vanilla, og Hugleik Dagsson svo dæmi séu nefnd. Þá er umfjöllun um veiði. Að auki er margt, margt fleira....