*

miðvikudagur, 21. ágúst 2019
Fólk 12. maí 2019 19:01

Hálfíslensk og hálfgeorgísk

Mariam Laperashvili er nýr sölu- og markaðsstjóri hjá hönnunarfyrirtækinu Tulipop.

Sveinn Ólafur Melsted
Ferðalög, laxveiði, umhverfismál, kvikmyndir og tónlist eru helstu áhugamál Mariam.
Haraldur Guðjónsson

Mariam Laperashvili tók nýlega við starfi sölu- og markaðsstjóra hjá hönnunarfyrirtækinu Tulipop. Nýja starfið leggst vel í Mariam.

„Tulipop er mjög spennandi fyrirtæki og ég ber mikla virðingu fyrir þeim einstaka Tulipop heimi sem Signý og Helga hafa skapað. Það er mjög skemmtileg saga á bakvið sögupersónurnar sem eru allar ófullkomnar og áhugaverðar á sinn hátt - sem endurspeglar vel fjölbreytileika heimsins. Það er mikill áhugi á Tulipop erlendis og fann ég sérstaklega vel fyrir því nýlega þegar ég fékk tækifæri til að kynna Tulipop á WonderCon sýningunni í Kaliforníu. Fyrirtækið hefur nú þegar náð töluverðri útbreiðslu á erlendum mörkuðum og við erum að vinna að því að koma vörunum okkar inn á enn fleiri. Það eru því mjög spennandi tímar framundan hjá fyrirtækinu. Það er líka gaman að segja frá því að þegar ég byrjaði að vinna hjá Tulipop þá hélt eldri dóttir mín að ég væri að fara vinna á Tulipop-eyjunni sjálfri. Hún varð því svolítið hissa þegar hún kom í fyrsta skiptið á skrifstofuna og sá að ég væri ekki að vinna á eyjunni," segir Mariam og hlær.

Mariam er hálfíslensk og hálfgeorgísk, sem hún segir vera afar sjaldgæfa blöndu, og hefur búið í sex löndum og talar sex mismunandi tungumál. Í dag býr hún í Mosfellsbæ ásamt eiginmanni sínum, Júlíusi Bjarna Bjarnasyni, og dætrum þeirra, sem eru fimm og eins árs gamlar. Hún segir að fjölskyldan sé mjög dugleg að bralla ýmislegt saman. Hún nefnir ferðalög sem sitt helsta áhugamál.

„Ég hef ferðast mikið allt frá barnsaldri þar sem pabbi minn vann í íslenska sendiráðinu. Mér þykir einnig mjög gaman að fara í laxveiði og er það sameiginlegt áhugamál hjá mér og manninum mínum. Ég veiddi maríulaxinn fyrir tveimur árum og eftir það var ekki aftur snúið, hann var tekinn á micro hitch í hylnum 31,5 (Bárðabunga) í Langá svo það komi fram. Svo kviknaði mikill áhugi hjá mér á umhverfismálum eftir að hafa unnið að sjónvarpsþáttaröðinni „Hvað höfum við gert?" sem sýnd er á RÚV. Þetta var eitt af síðustu verkefnum mínum hjá Sagafilm og ég er farin að hugsa mun meira um umhverfismál en ég gerði áður. Ég hef einnig mikinn áhuga á kvikmyndum og tónlist. Ég tel mig vera ákaflega gæfusama að hafa fengið tækifæri til að vinna í skapandi greinum; við kvikmyndagerð, tónlist og núna hönnun."