Lán Seðlabankans með veði í föllnu bönkunum eru eins og heit kartafla sem gengur milli ríkissjóðs og Seðlabanka. Ætla má að reiknaðar verðbætur og vextir vegna þeirra hafi skilað Seðlabankanum réttum megin við núllið í fyrra.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum og segja má að hálfónýt veðlán Seðlabanka Íslands vegna hruns viðskiptabankanna hafi gert það að verkum að bankinn var rekinn með 500 milljóna króna hagnaði í fyrra en ekki tugmilljarða króna tapi. Vaxtagreiðslur auk verðbóta af því 270 milljarða verðtryggða bréfi, sem ríkissjóður greiddi Seðlabanka Íslands vegna þeirra verðbréfa sem hann keypti af bankanum í kjölfar hruns íslensku viðskiptabankanna, námu um 35 milljörðum króna í fyrra.

Verðbæturnar námu 23,3 milljörðum en vextir liðlega 12 milljörðum króna. Seðlabanki Íslands var rekinn með um 500 milljóna króna hagnaði og fyrra og því ljóst að ef hann hefði ekki getað reiknað sér til tekna verðbætur og vexti af umræddum veðlánum hefði hann væntanlega verið rekinn með tugmilljarða tapi.

-Nánar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins