*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 8. mars 2020 16:02

Hálfs árs bið eftir fundargerðum

Viðskiptablaðið hefur í þrígang leitað til úrskurðarnefndar um upplýsingamál til að reyna að fá afrit af gögnum er varðar Lindarhvol.

Jóhann Óli Eiðsson
Starfsemi Lindarhvols er lokið en félaginu hefur ekki verið slitið.
Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

Það hefur reynst Viðskiptablaðinu þrautin þyngri að reyna að fá afrit af fundargerðum stjórnarfunda Lindarhvols ehf. Tæplega hálft ár er liðið frá því að beiðni um afrit af gögnunum var send fjármála- og efnahagsráðuneytinu (FJR) en botn hefur enn ekki fengist í málið. Blaðið hefur í þrígang leitað til úrskurðarnefndar um upplýsingamál (ÚNU) vegna þessa.

Undir lok september á síðasta ári óskaði blaðið eftir því við FJR að fá afrit af fundargerðum stjórnar félagsins. Svar barst 1. október en það var á þá leið að fyrirséð væri að vinna við að taka saman gögnin myndi verða tímafrek. Endanlegt svar myndi þó berast 15. nóvember. Ekki tókst að taka saman gögnin fyrir þann tíma og var blaðinu þá tilkynnt að svar myndi liggja fyrir eftir þrjár vikur. Það gekk ekki og kærði blaðið því afgreiðsludrátt til ÚNU.

FJR tók ákvörðun í málinu tæpri viku fyrir jól. Þar var beiðni blaðsins synjað á þeim grunni að það myndi heimta um 25 klukkustunda vinnu af hálfu starfsfólks FJR að afmá ýmsar upplýsingar úr fundargerðunum. Að mati ráðuneytisins var um svo mikla vinnu ræða að það myndi standa í vegi fyrir öðrum störfum þess og beiðninni synjað.

Málið aftur til FJR

Þessu vildi blaðið ekki una og kærði ákvörðun FJR til ÚNU. Í kærunni var meðal annars dregið í efa að vinnan væri svo umfangsmikil að ráðuneytinu yrði ógerlegt að sinna öðrum verkefnum á meðan. Nefndin kvað upp úrskurð sinn undir lok janúar. Að mati hennar stóðst ekki að yfirferð á fundargerðunum myndi taka svo mikinn tíma að unnt væri að hafna beiðninni af þeim sökum. Ákvörðun FJR var því felld úr gildi og málið sent þangað á ný til nýrrar meðferðar.

Beiðni um afrit af fundargerðunum var ítrekuð eftir að úrskurðurinn lá fyrir. Svar FJR barst 21. febrúar en þar var synjað um afhendingu gagnanna á þeim grunni að þau væru háð sérstakri þagnarskyldu samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands, gjaldeyrislögum og lögum um fjármálafyrirtæki.

Sú afstaða var kærð til ÚNU en kæran er studd þrenns konar rökum. Í fyrsta lagi hefur ÚNU áður komist að þeirri niðurstöðu að þagnarskylduákvæðið er varðar Lindarhvol sé almennt en ekki sérstakt en almenn þagnarskylduákvæði takmarka almennt ekki upplýsingarétt almennings. Í öðru lagi er á því byggt að Lindarhvoll hafi með reglubundnum hætti birt ýmsar upplýsingar um starfsemi sína. Í úrskurðarframkvæmd ÚNU hefur verið litið svo á að hafi upplýsingar, sem hafi verið háðar þagnarskyldu, verið kunngjörðar að þá falli sú skylda niður. Telur blaðið að að minnsta kosti beri að veita afrit af þeim fundargerðum sem innihalda þær upplýsingar. Í þriðja lagi bendir blaðið á að Lindarhvoll var ekki undanskilinn gildissviði upplýsingalaga, hvorki með lögum né auglýsingu þess efnis, líkt og í tilfelli Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ). Hægðarleikur hefði verið fyrir löggjafar- og framkvæmdarvald að láta upplýsingarnar fara leynt ef að því hefði verið stefnt. Málið er nú til meðferðar hjá ÚNU.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem afgreiðslur Lindarhvols eða FJR koma til kasta ÚNU en málstaður stjórnvalda hefur í fjórgang orðið undir fyrir nefndinni. Í tveimur tilfellum var synjun staðfest en í þeim tilfellum var beðið um gögn er varða úttekt ríkisendurskoðanda á félaginu.

Skýrslna beðið

Undanfarin ár hefur Ríkisendurskoðun unnið að úttekt á starfsemi Lindarhvols. Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi, skilaði greinargerð um starfsemi félagsins í júlí 2018 og tók Skúli Eggert Þórðarson við þegar hann varð ríkisendurskoðandi. Útgáfa skýrslunnar hefur dregist ítrekað en síðast var von á henni í febrúar. Það stóðst ekki og óvíst hvenær hún mun koma út.

Seðlabankinn hefur síðan unnið að skýrslu um starfsemi ESÍ undanfarin misseri. Upphaflega var stefnt að því að skýrslan kæmi út á árinu 2018 en sú tímasetning reyndist óraunhæf. Á haustmánuðum í fyrra kom fram að búist væri við því að skýrslan kæmi út „öðru hvoru megin við áramótin“. Álitaefni er hvort bankinn hafi sprengt þanþol þess frasa eður ei.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 

Stikkorð: Lindarhvoll