Hagnaður Ríkisútvarpsins (RÚV) á reikningstímabilinu 1. september 2011 til 29. febrúar 2012 var um 9 milljónir króna, samanborið við hagnað upp á rúmar 257,5 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Rekstrarhagnaður RÚV á tímabilinu, þ.e. hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði, nam 175,5 milljónum króna, samanborið við 377,1 milljón króna á sama tímabili í fyrra.

Þetta kemur fram í árshlutareikningi RÚV sem birtur var í gærkvöldi.

Rekstrartekjur félagsins jukust um rúmar 149 milljónir króna og námu á tímabilinu rúmum 2,7 milljörðum króna. Rekstrarkostnaður félagsins jókst um rúmar 350 milljónir króna og nam á tímabilinu rúmum 2,5 milljörðum króna. Þar munar mestu um dagskrár- og framleiðslukostnað sem jókst um rúmar 303 milljónir króna á tímabilinu.

Fjármagnsgjöld RÚV námu tæpum 149 milljónum króna og jukust um 45,7 milljónir króna á tímabilinu.

Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins um 5.660 milljónum króna, bókfært eigið fé í lok reikningstímabilsins er tæpar 746 milljónir króna og eiginfjárhlutfall félagsins er 13,2%.

Mikil aukning í auglýsingatekjum en einnig af fjármagnsliðum

Sem fyrr segir jukust rekstrartekjur RÚV um rúmar 149 milljónir króna. Þar munar mestu um auknar auglýsingatekjur, sem hækkuðu um tæpar 150 milljónir króna á milli ára og tekjur við kostun, sem hækkaði um rúmar 22 milljónir króna á milli ára. Þjónustutekjur og aðrar rekstrartekjur drógust þó saman á milli ára.

Þá hækkaði kostnaður við dreifikerfi um tæpar 18 milljónir króna og kostnaður við yfirstjórn um tæpar 23 milljónir króna. Töluverð hækkun varð á fjármagnskostnaði á milli ára, eða tæpar 56 milljónir króna þrátt fyrir að vaxtatekjur félagsins hafi aukist um tæpar 6,4 milljónir króna. Þar munar mestu um vaxtagjöld og verðbætur af langtímaskuldbindingum sem hækkuðu um rúmar 45 miljónir króna á milli ára. Þá jókst neikvæður gengismunur um rúmar 16,5 milljónir króna á milli ára á tímabilinu.

Launakostnaður RÚV á tímabilinu hækkaði um 117,7 milljónir króna á milli ára en stöðugjöldum fjölgaði um tólf. Þá jókst launakostnaður til ellefu helstu stjórnenda félagsins um 11,3 milljónir króna á milli ára á meðan stöðugildum fjölgaði um eitt.