Primera Air ehf. hagnaðist um 850 þúsund evrur í á síðasta ári eða 105 milljónir króna miðað við gengi gjaldmiðla um síðustu áramót. Verulegur samdráttur var í hagnaði á milli ára því árið 2016 hagnaðist félagið 5,2 milljónir evra árið 2016 eða ríflega 620 milljónir króna. Þetta kemur fram í samstæðureikningi félagsins fyrir árið 2017.

„Stór áhrifaþáttur á afkomu ársins 2017 fólst í viðgerð einnar 737-800 véla félagsins, en vélin var ónothæf frá mars 2017 til febrúar 2018, vegna tæringar á ytra byrði vélarinnar," segir í skýrslu stjórnar. "Viðgerðin var tímafrek og kostnaðarsöm. Kostnaður við viðgerð og leigu nýrrar vélar, €4 milljónir, hefur verið eignfærður og verður færður til gjalda yfir líftíma leigusamningsins. Kostnaður vegna leigu vélar, til að standa við flugáætlanir, nam samtals €7 milljónum á árinu 2017 og var að fullu gjaldfærður í rekstri. Það er mat stjórnar félagsins að huti framangreinds kostnaðar ætti að fást bættur frá tryggingum á árinu 2018."

Samkvæmt ársreikningi námu rekstrartekjur Primera Air 191 milljón evra í fyrra en til samanburðar námu tekjurnar 161 milljón evra árið 2016. Rekstrargjöld hækkuðu úr 156 milljónum árið 2016 í 187 milljónir í fyrra.

Heildareignir félagsins námu 52 milljónum evra um síðustu áramót samanborið við 33 milljónum ári áður. Eigið fé nam 4,6 milljónum evra um áramótin síðustu en var neikvætt um 17,1 milljón evra ári áður.

Andri Már Ingólfsson á Primera Air ehf. Hann á 84% í gegnum PA holding ehf. og 16% í gegnum önnur eignarhaldsfélag í hans eigu. Um áramótin samanstóð flugfloti félagsins af sjö Boeing 737-800 flugvélum og tveimur Boeing 737-700.