Þrátt fyrir að ferðaþjónustan færist í efra skattþrep virðisaukaskatts 1. júlí árið 2018, mun almenna þrepið ekki lækka niður í 22,5% fyrr en 1. janúar 2019.

Sú þjónusta sem færist um skattþrep verður gistiþjónusta ýmis konar, fólksflutningar í afþreyingarskyni, þjónusta ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og ferðafélaga, ferðaleiðsögn og baðaðstaða og heilsulindir.

Undanskilið því síðasta er þó aðgangseyrir að sundlaugum og líkamsræktarstöðvum. Starfsemi þessara greina skillaði rúmlega 5 milljörðum í tekjur af virðisaukaskatti árið 2016, sem eru um 3% af heildartekjunum af skattinum.

Aukning um 9 milljarða á næsta ári

Áætlar ráðuneytið að nettó skil á árinu 2018 aukist um tæplega 9 milljarða vegna breytinganna árið 2018 en um 16 milljarða árið 2019, þegar lækkun almenna þrepsins verður tekin gildi.

Samt sem áður gerir ráðuneytið ráð fyrir því að þessu fylgi 4% hækkun á heildarkostnaði ferðamanna af dæmigerðri Íslandsferð, og 0,06% hækkun á vísitölu neysluverðs miðað við 22,5% almennt skattþrep.

Telja að hafi ekki áhrif á fjölda ferðamanna

Í kynningu á áætlunum fjármálaráðuneytisins um að færa ferðaþjónustuna úr neðra í efra skattþrep, segir að vegna þess að greinin sé orðin að undirstöðugrein sem aflaði stærstum hluta gjaldeyristekna þjóðarinnar eigi skattalegar ívilnanir ekki lengur við.

„Afnám þessara ívilnana eykur kostnað erlendra ferðamanna við Íslandsferð aðeins um fáein prósent
og er ekki líklegt til að hafa veruleg áhrif á fjölda þeirra,“ segir jafnframt í kynningu ráðuneytisins.

Misvísandi upplýsingar um vægi tekna af ferðaþjónustu

„Ferðaþjónustugreinarnar sem ívilnanirnar eiga við um skila aðeins 3% af VSK-tekjum ríkisins. Afnám þessara ívilnana gerir kleift að lækka almenna VSK-þrepið öllum til hagsbóta.“

Bendir ráðuneytið einnig á að ferðaþjónusta sé í almennu skattþrepi í bæði Danmörku eða Bretlandi, þó skattaívilnanir tíðkist víða. En vegna vægi hennar hér séu skattaívilnanir sagðar mun kostnaðarsamari hér á landi en annars staðar, þrátt fyrir fyrri orð um 3% af virðisaukaskattstekjum ríkisins.