Í dag er hálft ár liðið frá því að Úrvalsvísitalan byrjaði að falla vegna frétta af auknum vanskilum ótryggra húsnæðislána í Bandaríkjunum, að sögn greiningardeildar Landsbankans [ LAIS ]. Hún segir að miklar hækkanir hafi einkennt íslenska markaðinn framan af árinu 2007 og þann 18. júlí 2007 hafi vísitalan staðið í 9.016 stigum eftir að hafa í fyrsta skipti farið upp fyrir 9.000 stig. Samtals námu hækkanirnar frá upphafi árs 2007 til lokagengis 18. júlí 41%.  Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og alþjóðleg lánsfjárkrísa skapast.

„Vonir voru í upphafi að niðursveifluna tæki skjótt af og frá því að lækkanirnar hófust hefur þróun markaðarins tvisvar breyst til batnaðar með hækkun vísitölu yfir 5% án þess að varalegum viðsnúningi hafi verið náð. Þetta gerðist fyrst í águst s.l. þegar bjartsýnni fregnir af efnahagshorfum fóru að berast frá Bandaríkjunum og síðan í nóvember í kjölfar tilkynningar Kaupþings [ KAUP ] um að fjármögnun á kaupunum á NIBC væri lokið,” segir greiningardeildin.

Nú eru hinsvegar sterkar blikur á lofti, segir greiningardeildin, um að lánsfjárkrísan sé ekki á enda runnin. „Úrvalsvísitalan hefur lækkað mikið það sem af er ári og horfur eru á því að íslensku bankarnir eigi erfiðara um vik að fjármagna sig vegna þeirra kjara sem bjóðast á alþjóða lánamarkaði,” segir hún.

Úrvalsvísitalan er nú 5.531 stig og hefur lækkað um 38,7% á því hálfa ári sem liðið er frá því að vísitalan náði hámarki, að sögn greiningardeildarinnar.