Heildarfjárhæð skattafsláttar vegna umsvifa á sviði nýsköpunar og vexti sprotafyrirtækja á árinu 2010 nam hátt í hálfum milljarði króna.

Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

Steingrímur segir að nýsköpun eigi ekki að vera bundin við einkageirann og á dögunum hafi verið afhent fyrstu verðlaunin og viðurkenningar fyrir nýsköpun í starfsemi og rekstri hjá hinu opinbera.

„Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að umhverfi sprota– og nýsköpunarfyrirtækja verði bætt með breytingu á skattalögum þannig að styðja megi við bakið á rannsóknar- og þróunarstarfi,“ segir Steingrímur.

Steingrímur segir að áhrif skattafsláttarins hins vegar ekki koma fram fyrr en nú í lok október 2011 við álagningu opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2010. Í grófum dráttum er afslátturinn allt að 20% af útlögðum kostnaði vegna rannsókna og þróunar hjá nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem fengið hafa staðfestingu Rannís sem slík, þó upp að ákveðnu hámarki. Afslátturinn er útborganlegur að því marki sem hann er hærri fjárhæð en þau opinberu gjöld sem lögð eru á umsækjanda skattafsláttarins eftir hefðbundna skuldajöfnun.

„Þegar rýnt er í skiptingu skattafsláttarins eftir atvinnugreinum má sjá svart á hvítu þá ánægjulegu staðreynd að fyrirtæki sem starfa við nýsköpun og hlotið hafa skattafsláttinn starfa á mjög fjölbreyttu sviði,“ segir Steingrímur.

„Mjög mörg þeirra fást við hugbúnaðargerð eða hugbúnaðartengda starfsemi og taka þau til sín yfir 40% allra endurgreiðslnanna. Einnig er gróska t.d. í rannsóknar- og þróunarstarfi í líftækni, verkfræði og tækjaframleiðslu á búnaði til prófana og leiðsagnar og verkefnum á sviði matvælaframleiðslu og sorpsöfnunar.“

Sjá grein Steingríms í heild sinni.