Þrátt fyrir að repúblikanar hafi náð meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings er ekki þar með sagt að þeir ráði nú ferðinni. Nú mun fyrst og fremst reyna á samvinnu flokkanna tveggja.

Niðurstaða nýafstaðinna þingkosninga í Bandaríkjunum er líklega sú að bandarískir kjósendur hafi kallað eftir skýrari stefnu í atvinnu- og efnahagsmálum.

Þetta virðist vera samhljómur helstu viðskiptafjölmiðla vestanhafs en í ljósi þess að repúblikanar náðu meirihluta í fulltrúardeild þingsins, og sóttu verulega að meirihluta demókrata í öldungadeildinni, verður erfiðara fyrir Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, að koma stærstu málum sínum í gegn.

Rétt er að taka það fram að þrátt fyrir mikinn sigur repúblikana á þriðjudag gera fjölmiðlar og stjórnmálaskýrendur fyrirvara um það hversu miklar breytingar verða. Þrátt fyrir að repúblikaninn John Boehner verði nú forseti þingsins (e. speaker of the house) og repúblikanar geti þannig haft veruleg áhrif á hvaða mál eru tekin fyrir á þinginu, verður að hafa í huga að demókratar hafa enn meirihluta í öldungadeildinni auk þess að hafa sinn mann í Hvíta húsinu.

Því gæti allt eins orðið stjórnmálakreppa vestanhafs eftir kosningar. Á kosninganótt var mikið haft á orði að nú gætu repúblikanar ekki lengur verið bara stjórnarandstöðuflokkurinn sem hamast í meirihlutanum heldur muni almenningur nú horfa til þess hvaða lausnir þeir bjóða upp á í slæmum efnahag landsins.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .