Halla Tómasdóttir, annar stofnenda Auðar Capital og starfandi stjórnarformaður, hlaut í dag jafnréttisviðurkenningu Kópavogsbæjar fyrir frumkvöðlastarf og gott fordæmi kvenna á öllum aldri.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ.

„Halla Tómasdóttir stofnaði fyrirtækið Auði Capital síðasta vetur í samvinnu við Kristínu Pétursdóttur. Auður Capital sérhæfir sig í viðskiptum við fyrirtæki þar sem konur eru í lykilhlutverki enda hafi rannsóknir sýnt að slík fyrirtæki skili meiri arðsemi,“ segir í rökstuðningi jafnréttisnefndar Kópavogs á valinu á Höllu.

„Fyrirtækið sér viðskiptatækifæri í þeim þjóðfélagsbreytingum sem felast í bættri menntun kvenna og auknum fjárráðum þeirra.“

Þá kemur einnig fram að Halla hefur verið áberandi í íslensku viðskiptalífi. Auk stjórnarsetu í ýmsum fyrirtækjum hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, stofnandi og stjórnandi Stjórnendaskóla Háskólans í Reykjavík og Auðar í krafti kvenna.

Í rökstuðning jafnréttisnefndar kemur fram að Auður í krafti kvenna stóð að ýmsum verkefnum fyrir breiðan hóp kvenna, Einn dag á ári fylgdu dætur mæðrum sínum í vinnuna, haldin voru fjármálanámskeið fyrir konur, frumkvöðlanámskeið sem skiluðu stofnun nýrra fyrirtækja og einnig leiðtogaauður, þar sem komu saman konur sem voru í áhrifastöðum og styrktu tengsl sín.

„Halla hóf störf sem mannauðsstjóri hjá Íslenska útvarpsfélaginu þegar hún flutti aftur til Íslands eftir langa dvöl í Bandaríkjunum við nám og störf hjá þekktum stórfyrirtækjum, M&M/Mars og Pepsi Cola,“ segir í rökstuðningi jafnréttisnefndar.

„Námsferill Höllu hófst í Kársnesskóla og þaðan lá leiðin í Þinghólsskóla líkt og annarra vesturbæinga. Halla fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna og eftir stúdentspróf hélt hún aftur þangað til að nema viðskiptafræði og mannauðsstjórnun. Halla hefur undanfarin ár verið með annan fótinn í Bretlandi vegna doktorsnáms síns.

Halla hefur verið Kópavogsbúi frá unga aldri með hléum þegar hún hefur dvalið erlendis. Jafnréttisnefnd Kópavogsbæjar er stolt að veita henni jafnréttisviðurkenningu Kópavogsbæjar árið 2008 fyrir frumkvöðlastörf hennar og þá góðu fyrirmynd sem hún er konum á öllum aldri.“